Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann hafði synjað því að kyrrsetja eignir HD verks.
Íbúar að Bræðraborgarstíg 1, og aðstandendur þeirra sem létust í bruna þar 25. júní á síðasta ári, hafa krafist þess að eignir félagsins verði kyrrsettar til að tryggja kröfu þeirra um miskabætur.
Í úrskurði héraðsdóms var felld úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 14. janúar um að synja um framgang kyrrsetningarinnar á eignum HD verks ehf. og lagði héraðsdómur Reykjavíkur fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að kyrrsetja fasteignir félagsins á Dalvegi 24 og 26 eða aðrar eignir félagsins.
Landsréttur hefur nú staðfest þennan úrskurð eins og áður sagði.
Tekið er fram í úrskurði Landsréttar að HD verk hafi þegar selt þrjár af eignum sínum.
Með vísan til þess, og viðvarandi tapreksturs undanfarin ár sem lesa megi úr ársreikningi félagsins, sé það mat réttarins að án kyrrsetningar dragi mjög úr líkindum til að kröfur íbúanna og aðstandendanna verði fullnustaðar.
Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg.
Áður hefur komið fram í umfjöllun mbl.is að kröfur aðstandenda og leigjenda sem bjuggu í húsinu sem brann hljóði upp á tugi milljóna.