Tveir karlmenn hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í október í fyrra í Reykjavík þar sem þeir veittust að hvor öðrum.
Í ákæru málsins er fyrri maðurinn ákærður fyrir að hafa slegið þann seinni í höfuðið með glerglasi, en við höggið brotnaði glasið. Í kjölfarið sló hann manninn með höggum í höfuðið með krepptum hnefa.
Seinni maðurinn er hins vegar ákærður fyrir að hafa stungið þann fyrri með IKEA-borðhníf í bakið með þeim afleiðingum að sá fyrri hlaut 3 cm langan og 5 cm djúpan skurð á bakinu.
Fyrri maðurinn, sá sem varð fyrir hnífastungunni, fer í málinu einnig fram á að sá síðari verði dæmdur til að greiða honum tvær milljónir í miskabætur vegna málsins. Málið verður þingfest síðar í mánuðinum í Héraðsdómi Reykjavíkur.