Rennsli í Skaftá heldur áfram að minnka en það mælist nú í 250 rúmmetra á sekúndu við Sveinstind, að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Er krafturinn þar nú sexfalt minni miðað við þegar mest lét, en á þriðjudaginn náði hlaupið hámarki við Sveinstind þegar rennsli mældist í 1.500 rúmmetrum á sekúndu.
Rennsli í Eldvatni hefur líka farið lækkandi og mældist það einnig í kringum 250 rúmmetra á sekúndu. Er þetta rúmlega þriðjungur af þeim krafti sem mældist þegar hlaupið var í hámarki þar á þriðjudag, þá mældist rennslið í 650 rúmmetrum á sekúndu.
Er þetta enn töluvert mikið miðað við rennsli í ánni á þessum árstíma en undir venjulegum kringumstæðum væri rennsli í 100-150 rúmmetrum á sekúndu.