Vita ekki hvaðan hlaupvatnið kemur

Vestari-Jökulsá rennur saman við Austari-Jökulsá og mynda þær Héraðsvötn.
Vestari-Jökulsá rennur saman við Austari-Jökulsá og mynda þær Héraðsvötn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það mælist nú aukin rafleiðni í Vestari-Jökulsá en enn sem komið er ekki aukin vatnshæð eða aukið rennsli,“ seg­ir Hulda Rós Helga­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands. Aðgerðastjórn al­manna­varna á Norður­landi vestra greindi frá því fyrr í dag að jökulhlaup væri hafið í ánni. 

Hulda segir hlaupvatn virðast vera í ánni og að vatnshæð og rennsli gæti aukist á næstu dögum. „Þetta er mjög lítið enn sem komið er,“ segir hún og bætir við að engin hætta stafi af hlaupinu.

Jarðhitavirkni gæti hafa breyst

Er jarðhiti undir Hofsjökli?

„Það eru jarðhitasvæði þarna en það á eftir að skoða betur hvaðan þetta kemur, það eru allir mjög spenntir fyrir því hérna á Veðurstofunni,“ segir Hulda og bætir við að forvitnilegt verði að skoða loftmyndir sem verður hægt að taka þegar það verður skýlaust.

„Síðast hljóp á svæðinu árið 2013 og þá sást víst nýr ketill á jöklinum. Það gæti verið að það sé einhver breyting á jarðhitavirkni þarna undir,“ segir hún og bætir við að hlaupið árið 2013 hafi verið mjög lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert