Arion banki sætir árás

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.

Netárás stendur nú yfir á Arion banka. Þetta staðfestir bankastjórinn Benedikt Gíslason í samtali við mbl.is. Segist hann búast við því að fleiri félög hér á landi sæti nú einnig slíkri árás.

„Það er verið að vinna í að hrinda árásinni, en þetta er með umfangsmeiri árásum sem hafa verið gerðar hér á landi, ég held að það megi fullyrða það,“ segir Benedikt.

Aðspurður segir hann árásina hafa hafist rétt fyrir klukkan níu í kvöld.

App bankans og þjónustuvefur voru rétt í þessu að komast aftur á laggirnar. Þau lágu niðri fyrr í kvöld eins og mbl.is greindi áður frá.

Ætlað að rjúfa þjónustuna

„Það er einfaldlega sett óeðlilega mikið gagnamagn á vefþjónana okkar. Fjölmennt lið vinnur nú að því að loka fyrir það.“

Árásinni er eingöngu ætlað að valda þjónusturofi að sögn Benedikts. Engir fjármunir séu því í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert