Dagurinn verði „fróðlegur“

Sjá má í kvikuna til hægri og vinstri í fjarska.
Sjá má í kvikuna til hægri og vinstri í fjarska. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

Kvika sem renn­ur und­an gos­gígn­um eft­ir lokuðum rás­um í Geld­inga­döl­um hefur brotið sér leið upp á hraun­yf­ir­borðið á nokkr­um stöðum eftir um viku langt hlé á gosóróa. Aukinni virkni fylgir aukinn fjöldi fólks sem leggur leið sína að gosstöðvunum. 

„Það kemur upp eldur og fullt af fólki sem hleypur á eftir því, það er nákvæmlega það sem skeði,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, spurður hvort að aukinn fjöldi fólks hafi lagt leið sína að gosstöðvunum í dag.

Virðist bara elta ljósið

„Á morgun er mikil veðurspá svo þetta hefði mátt bíða í þrjá daga í viðbót og leyfa þessari lægð að líða hjá. Morgundagurinn gæti orðið fróðlegur,“ segir Bogi og bætir við: „Það er alltaf aukin traffík þegar þetta byrjar aftur, sérstaklega þegar það gerist eitthvað nýtt eins og núna.“

Gul viðvörun vegna veðurs er í gildi fyrir morgundaginn þegar von er á fyrstu haustlægðinni. Bogi segir að helsta áhyggjuefnið séu erlendir ferðamenn sem eflaust hafi ekki orðið varir við slæma veðurspá. 

„Það næst ekki alltaf til allra og fólk virðist bara elta ljósið og æða í það,“ segir Bogi. 

Þrátt fyrir slæma veðurspá verður hefðbundinn viðbúnaður viðbragðsaðila á gossvæðinu. Hann segir að fróðlegt verði að fylgjast áfram með gangi gossins.

„Við þurfum að sjá hvað gerist. Ég vildi að við værum betur tengd en við bara vitum ekki meir. Það væri gott ef við gætum fengið einhverja viðvörun fyrirfram,“ segir Bogi kíminn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert