Ég vil skila skömminni

„Ég vil stíga fram og setja með því gott fordæmi; …
„Ég vil stíga fram og setja með því gott fordæmi; þetta er ekki okkar skömm. Þetta er algjörlega hans,“ segir Óli Björn Pétursson sem er eitt fórnarlamba Sigga hakkara. mbl.is/Ásdís

Óli Björn Pétursson varð fyrir grófu kynferðisofbeldi, auk andlegs og líkamlegs ofbeldis, af hálfu kynferðisglæpamannsins sem oftast gengur undir nafninu Siggi hakkari. Óli Björn var aðeins unglingur að aldri þegar brotin áttu sér stað en er nú loks á góðum stað eftir mikla sjálfsvinnu hjá sálfræðingi. Hann vill nú stíga fram og hvetur aðra unga menn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi til þess sama. Þeir eigi aldrei að þegja yfir ofbeldi því skömmin er ekki þeirra að bera.

Óli Björn vill skila skömminni í eitt skipti fyrir öll, en eftir áralanga sálfræðimeðferð er hann reiðubúinn til þess.

Tælingar og blekkingar

Sagan byrjar snemma árs árið 2011. Skilaboð detta inn í síma Óla Björns frá nítján ára gömlum manni sem hann kannaðist við úr fjölskylduboðum, fyrrnefndum Sigurði.

„Ég hafði hitt hann í matarboðum en foreldrar hans eru vinafólk ættingja minna. Svo byrjar hann að senda mér skilaboð í gegnum Facebook. Ég var þá ekki orðinn fimmtán ára. Hann byrjar að segja mér hvað hann eigi flotta bíla, hvað hann sé æðislegur og eigi mikinn pening. Hann vildi bjóða mér tölvur, bíla og síma í skiptum fyrir kynferðislegt athæfi,“ segir hann.

„Ég samþykkti ekkert til að byrja með; ég var bara ungur og hræddur en þá komu hótanir á móti. Hann var með tælingar og blekkingar og nefnir háar upphæðir, bíla og geggjaða iPhone-síma, eitthvað sem alla unga stráka dreymir um. Hann hætti aldrei að senda á mig fyrr en ég samþykkti og þá kom hann,“ segir Óli Björn og segir að Sigurður hafi fyrst brotið á sér 24. apríl 2011 á Sauðárkróki, en Sigurður keyrði norður gagngert til að brjóta á drengnum.  

„Hann var ekki með neitt af því sem hann hafði lofað. En þá nauðgar hann mér fyrst.“

Notaði rafbyssu og piparúða

„Þetta byrjaði svona og varð svo að 40-50 skiptum. Í dómnum kemur fram að skiptin voru fjörutíu en þau voru fleiri,“ segir Óli Björn.

„Það er erfitt að segja frá þessu. Hann náði mér og það varð ekki aftur snúið. Hann hótaði mér öllu illu. Hann hótaði að segja frá, en ég upplifði gríðarlega skömm. Hann hótaði að gera fjölskyldunni minni illt. Ég var í heljargreipum. Ég sagði engum frá neinu á þessum tíma,“ segir Óli Björn og segir að flest brotin hafi átt sér stað í bíl í nágrenni Sauðárkróks.

„Þetta hætti ekki fyrr en 2013-2014, þannig að þetta var í gangi í tvö og hálft til þrjú ár. Þetta er löng saga. Þetta var svo gríðarlegt að ég vildi helst bara gleyma öllu,“ segir Óli Björn og segir Sigurð hafa haft algjört vald yfir honum.

„Hann átti vopn; rafbyssu, handjárn og hann var með skammbyssu og skothelt vesti í bílnum. Það var allur pakkinn. Hann notaði eitt sinn rafbyssuna á mig og ég ber ör eftir það. Hann notaði hana á mig þegar ég neitaði að gera það sem hann vildi. Hann notaði í eitt skipti á mig piparúða. Honum þótti ógurlega fyndið að spreyja piparúða beint í augun á mér. Hann beitti mig oft líkamlegu ofbeldi á allan hátt. Hann lét mig líka hafa Viagra til þess að ég gæti gert eitthvað við hann. Hann var alltaf með valdið og ég vissi hvað hann var fær um. Ég var alltaf hræddur við hann og gerði bara það sem hann sagði mér að gera. Þetta var ógeðslegt frá A til Ö,“ segir Óli Björn og segist einu sinni hafa reynt að segja nei.

„Þá hótaði hann fjölskyldu minni og var þá kominn fyrir utan húsið. Ég lét þetta frekar bitna á mér heldur en á nokkrum öðrum.“

Allan þennan tíma keyrði Sigurður af og til norður til að brjóta á drengnum. Og alltaf bar Óli Björn harm sinn í hljóði.

„Ég þorði aldrei að segja neinum frá þessu. Þetta var svo gríðarleg skömm. Ég hafði verið flottur strákur og vinsæll í skóla,“ segir Óli Björn og segist hafa breyst mikið á þessum tíma.“

Myndband af nauðgun

Hvernig endaði þetta, sagðir þú loksins frá?

„Nei, ég sagði aldrei frá. Hann var á þessum tíma dæmdur fyrir að svíkja út peninga hingað og þangað. Málið var að hann tók upp myndband af mér sem lögreglan komst í. Þess vegna komst þetta upp. Það var hringt í mömmu og pabba og mamma spyr mig út í þetta. Ég neitaði; það var ekki séns að ég myndi segja frá. En þá var ég spurður hvort lögreglan eða lögfræðingur mætti heyra í mér. Svo var hringt í mig frá kynferðisafbrotadeildinni. Ég sagði fyrst að jú, ég hefði lent í honum einu sinni. En svo kom lögreglan hingað og þá var tekin skýrsla. Þá gat ég ekkert annað gert en að opna mig. Ég sagði frá öllu saman. Þeir sýndu mér myndbandið, en ég hafði aldrei vitað af því. Mér brá rosalega; þetta var hræðilegt. Ég brotnaði alveg niður hjá lögreglunni. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég var bara ungur strákur að horfa á myndband af manni að nauðga mér.“

Fékk ekki dóm sem hann átti skilið 

Sigurður var kærður og dæmdur fyrir mörg kynferðisbrot, en brotin gegn Óla Birni voru þau umfangsmestu.

„Það voru níu strákar í heildina sem hann var dæmdur fyrir að brjóta á. Ég veit ekki til að neinn þeirra hafi stigið fram eins og ég er að gera núna. Hann sat aðeins inni í nokkra mánuði, það er það versta af öllu,“ segir Óli Björn en þess má geta að Sigurður var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn níu drengjum en sat aðeins inni í níu mánuði fyrir þau brot, en hafði setið inni áður fyrir eitt kynferðisbrot. Sigurður sat svo lengur inni fyrir efnahagsbrot af ýmsu tagi.

„Ég reyni að ýta skömminni frá mér og held áfram …
„Ég reyni að ýta skömminni frá mér og held áfram með mitt líf. En þetta er alltaf í bakpokanum og það koma upp hugsanir annað slagið,“ segir Óli Björn. mbl.is/Ásdís

Í frétt frá 2016 á ruv.is segir: Sigurður var í september í fyrra dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn níu drengjum, auk tuga annarra brota. Hann játaði að hafa tælt fimm pilta á aldrinum 15 til 16 ára, hátt í 60 sinnum, með margvíslegum blekkingum. Meint brot Sigurðar gegn tveimur drengjum leiddu ekki til ákæru. Annar þeirra svipti sig lífi fyrr á þessu ári.

„Mér finnst hann ekki hafa fengið þá refsingu sem hann ætti skilið fyrir allt sem hann gerði okkur strákunum. Svo er eins og almenningur hafi gleymt þessum brotum og hann alltaf kallaður Siggi hakkari,“ segir hann.  

Ekki mín skömm

Óli Björn hefur reynt að segja skilið við þennan skelfingarkafla í lífi sínu en segir að ofbeldið sem hann varð fyrir hafi enn áhrif á líf hans.

„Ég reyni að ýta skömminni frá mér og held áfram með mitt líf. En þetta er alltaf í bakpokanum og það koma upp hugsanir annað slagið. Þetta hefur alveg áhrif. En ég er ekki lengur reiður og ekki sár. Ég sagði sálmeðferðarfræðingnum mínum um daginn að ég ætlaði að fara með þetta í fjölmiðla. Ég er búinn að vinna í mínum málum í tvö ár og búinn að skila ákveðinni skömm, en það er alltaf eitthvert púsluspil sem vantar. Ég þarf að skila skömminni út í samfélagið. Ég vil að fólk viti hvað gerðist,“ segir Óli Björn og segir sálmeðferðarfræðinginn hafa stutt hann í því að stíga fram.

„Ég vil stíga fram og setja með því gott fordæmi; þetta er ekki okkar skömm. Þetta er algjörlega hans. Hann á að vera með skömmina, en hann er siðblindur og finnur líklega ekki fyrir skömm.“

Feimnismál hjá körlum

Hvernig er líf þitt í dag?

„Það er æðislegt. Ég er kominn með konu og barn, í góðri vinnu og að flytja í nýtt hús. Ég á gott líf og er búinn að vinna mikið í mér og ætla ekki að hætta því. Það er ekki skammarlegt að nýta sér sálfræðiþjónustu og mér finnst að allir sem þess þurfa ættu að nýta sér það. Eldri kynslóðinni hefur kannski fundist það aumingjaskapur að hitta sálfræðing en það er ekki rétt. Það hefur líka verið meira feimnismál hjá körlum að leita sér hjálpar eftir svona brot og líka að segja frá þeim,“ segir Óli Björn og hvetur unga menn sem lent hafa í kynferðisofbeldi að segja frá. Það er nefnilega ekki bara brotið á konum.

„Ég vona að með þessu hjálpi ég öðrum ungum mönnum að segja frá og stíga fram. Við eigum ekki að þurfa að bera slíka skömm heldur er betra að segja frá, því að það auðveldar allt. Ég hefði sjálfur aldrei sagt frá ef þetta myndband hefði ekki komið fram. Ég hefði aldrei þorað að segja frá öllum þessum viðbjóði sem ég lenti í,“ segir Óli Björn og segir í raun að það hafi verið gott að hann neyddist til að segja frá.

Hvað myndir þú segja í dag við ungan mann sem þyrði ekki að segja frá slíku ofbeldi?

„Ef einhver er í þessum sporum sem ég var í, myndi ég segja honum að segja frá strax. Ekki fela þetta og leitaðu þér hjálpar hjá fagaðila. Ekki hika við það. Því það að þurfa að bera þetta með sér í mörg ár er gríðarlega erfitt. Ekki skemma lífið vegna brots sem þú berð enga ábyrgð á. Þetta á ekki að eyðileggja allt líf manns,“ segir Óli Björn og segir að tveir yngstu bræður hans viti ekki hvað kom fyrir hann. Hann mun þurfa að eiga samtal við þá núna.

„Ég er búinn að tala við mína nánustu og vinnuveitendur og allir vita um þetta viðtal. Ég hef beðið fólk að taka mér ekki öðruvísi eftir lesturinn. Ég er ekki að biðja um vorkunn, heldur skilning. Ég vil bara skila skömminni og halda áfram með líf mitt.“

Ítarlegt viðtal er við Óla Björn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert