Að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, eru jökulhlaupin í Skaftá og Vestari-Jökulsá bæði áfram í rénun.
Upptakakvíslar hlaupsins í Vestari-Jökulsá koma undan Hofsjökli norðanverðum en óvíst er þó nákvæmlega hvaðan. Sérfræðingar Veðurstofunnar eiga eftir að athuga það nánar á næstu dögum.
Rafleiðni í ánni jókst í gær og náði hámarki í gærkvöldi en hefur hjaðnað eftir það. Vatnshæð og rennsli hefur ekki aukist í ánni.
„Þetta hlaup er sennilega mjög svipað og var árið 2013,“ segir Böðvar.
Á vef Veðurstofunnar segir að það hlaup hafi hafist 21. ágúst þegar Skagfirðingar urðu varir við mikinn brennisteinsþef. Hlaupið náði hámarki 24. ágúst en hjaðnaði svo á 3 til 4 dögum. Rennsli árinnar jókst ekki svo að vandræði hlytust af.
Búast má við að hlaupið í Skaftá klárist á næstu dögum að öllu óbreyttu. „Hlaupið hefur minnkað mjög mikið.“