Hótunarbréf kæmi ekki á óvart

Þeim þremur íslensku fjármálafyrirtækjum sem urðu fyrir netárásum í gær bárust ekki hótunarbréf fyrir árásina. Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, segir að það kæmi ekki á óvart ef slíkt bréf bærist á næstu dögum.

Samkvæmt upplýsingum frá SaltPay bendir ekkert til þess að árásinni í gær hafi sérstaklega verið beint að þeim. Hið sama megi segja um árásina sem fyrirtækið varð fyrir í síðustu viku.

Þeim hafi heldur verið beint að þjónustuaðilum þeirra. Þá telur fyrirtækið ekkert benda til þess að árásirnar tvær séu tengdar.

Markmiðið greint

Ekki er vitað hvert markmið árásarinnar var en nú er unnið með eftirlitsaðilum að því að greina það, segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor, í samtali við mbl.is. 

Árásin er enn fremur til skoðunar hjá Seðlabankanum.

„Starfsfólk Seðlabanka Íslands hefur fylgst með þessu atviki og fer svo nánar yfir það,“ segir í skriflegu svari frá Seðlabankanum.

Ekki vitað um önnur fórnalömb

„Landsbankinn varð ekki fyrir þessum árásum en það gæti verið að hún hafi haft áhrif á viðskiptavini bankans þar sem að þeir eru með kort útgefin af Valitor,“ segir Rúnar Pálmason upplýsingafulltrúi Landsbankann í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert