Inga Þóra Pálsdóttir
Líklegt er að netárásirnar sem framdar voru í gær hafi verið framkvæmdar í von um gróða. Talið er að engin gögn séu í hættu, að sögn Guðmundar Arnars Sigmundssonar, forstöðumanns netöryggissveitarinnar CERT-ÍS.
Þau þrjú fjármálafyrirtæki sem lentu í netárásum í gær voru Arion Banki, SaltPay og Valitor.
„Þetta er svona álagsárás, þeir skemma engin gögn en taka þjónustuna niður,“ sagði Guðmundur.
Hann segir fjölda uppkalla á kerfin gera það að verkum að þau séu tekin niður en að engin gögn séu í hættu.
Aðspurður hvert markmið árásamannanna sé segir Guðmundur netárásir langoftast vera gerðar í gróðavon og að oft sendi menn hótunarbréf þar sem hótað er að taka fyrirtæki niður nema þau greiðir ákveðna upphæð fyrir tiltekinn tíma. Þá tekur hann einnig fram að það kosti alltaf að gera svona árásir.
„Umfangið er mikið, greiðslur stöðvast og fólk getur ekki klárað viðskipti. Það eru í raun greiðslumiðlanirnar ásamt hóp á vegum Seðlabankans sem þurfa að taka þetta áfram og ákveða hver næstu skref verða varðandi það að bregðast við svona árásum,“ sagði Guðmundur.