Hvassri suðaustanátt er spáð seinni partinn í dag með talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands. Gular viðvaranir taka gildi síðdegis og í kvöld.
„Með storminum í dag er spáð hviðum allt að 35-40 m/s frá því um kl.12 á N-verðu Snæfellsnesi og frá um kl. 15 undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og í Hvalfirði. Í hámarki frá 18 til miðnættis. Þá verður jafnframt varhugavert á Reykjanesbraut í úrhellis rigningu,“ segir í ábendingu sem Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, sendi mbl.is.
Fyrsta gula viðvörunin tekur gildi klukkan fjögur síðdegis. Sú viðvörun gildir fyrir miðhálendið og er tilkomin vegna talsverðrar rigningar og suðaustanstorms. Klukkan sex taka svo viðvaranir gildi á þremur svæðum til viðbótar, á Suðurlandi, í Faxaflóa og á Breiðafirði. Þær eru vegna hvassrar suðaustanáttar og talsverðrar rigningar. Klukkan átta bætist við viðvörun á Suðausturlandi vegna talsverðrar rigningar.
Viðvaranirnar falla svo úr gildi ein af annarri þegar líður á mánudag.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins varar fólk við veðrinu og minnir fólk á að tryggja lausamuni í görðum vegna þessa.