Riðuveiki, sem staðfest var á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði síðasta föstudag, er mikið áfall að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar, sveitarstjóra sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Um 1.500 fjár eru á bænum, bæði fullorðið fé og lömb, en því fé þarf nú að lóga samkvæmt gildandi reglugerð. Syðra-Skörðugil er í Húna- og Skagahólfi en í því hólfi greindist síðast riða síðasta haust.
Sigfús segir bændurna á Syðra-Skörðugili ekki enn hafa haft tíma til að hugsa um tjónið enda voru göngur þegar riðuveikin kom upp og síðan réttir. Hann segir það þó viðbúið að þegar hægist á muni bændurnir finna fyrir áfallinu.
„Þetta er þrjátíu ára ræktunarstarf sem er að gufa upp í einu vetfangi,“ segir Sigfús.
Réttir voru í Skagafirði í gær og kom féð af Syðra-Skörðugili niður í réttirnar og var réttað með öðru fé. Allt féð fór í einn almenning áður en dregið var í dilka. Sigfús segir það ekki hafa verið hægt að hafa fyrirkomulagið annað og bendir á að tilfelli riðuveiki hafi áður komið upp á þessum árstíma.
„Auðvitað er fólk uggandi,“ segir hann en bendir á það séu til auðveldari smitleiðir en í réttum. „En þetta er ekki heppilegasti árstíminn til að greinast á, það er alveg rétt,“ segir Sigfús.
Hann segist vita til þess að bændur sem hafa lent í því að riða greinist á bæ þeirra hafi gagnrýnt að þeir fái ekki nema ákveðnar bætur greiddar. Þannig fáist greitt fyrir jarðvegsskipti, efnisskipti á timburvegi og álíka, en sú vinna sem lendir á bændunum sé ekki metin. „Það vantar alveg að meta þessa miklu vinnu sem bændurnir leggja í þetta,“ segir hann.
Bændur hafi ítrekað bent á þetta og Sigfús kveðst vita til þess að hluti þeirra bænda sem lentu í niðurskurði í fyrra hafi haldið mjög samviskulega skrá yfir sínar vinnustundir svo það liggi fyrir hvað vinnan er í raun og veru mikil.
Einnig hafi hann heyrt frá bændum að samningar um bætur hafi tekið of langan tíma.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir reglugerðina um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar hafa verið í endurskoðun og rætt hafi verið við ráðuneytið um helgina. Gunnar vonar að samtalinu verði haldið áfram.
Aðspurður segir hann að samtalið verði að fjalla um upphæð bótanna en auk þess sé búið að óska eftir að ferlinu verði hraðað. Þá nefnir hann að bætur verði að berast hraðar en þær gerðu eftir að riðuveiki kom upp í Skagafirði síðasta haust.
„Það er eiginlega búið að gera það upp, en það er nú ekkert alltof langt síðan það var gert, þannig að við höfum gjarnan viljað hraða þessu meira heldur en var gert síðastliðið haust,“ segir Gunnar. Tjónið sé heilmikið fyrir bændur.
Hjónunum barst síðan ekki nema þriðjungur bótanna og fóru þau því með málið fyrir héraðsdóm í júlí 2012, þar sem þau unnu málið. En ekki barst þó afgangur greiðslunnar.
„Svo var það fljótlega eftir að ég kom þessu á framfæri við Morgunblaðið, og einhver birti frétt um þetta, að þeir borguðu,“ segir Sigurður en fréttin var skrifuð í október 2012, fimm árum eftir að riðan kom upp.