„Þegar fólk er í þeirri stöðu að neita börnunum sínum um mat, fatnað, félagsstarf, þá erum við við það að búa til stórslys framtíðarinnar. Þetta dregur upp ömurlega mynd einstaklinga og barna sem þurfa að lifa í þessum aðstæðum,“ segir Drífa Snædal, formaður ASÍ, um niðurstöður rannsóknar Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, um hagi fatlaðs fólks.
Leiðir hún í ljós að um 75% fatlaðs fólks á frekar erfitt eða erfitt með að ná endum saman, helmingur hefur fengið fjárhagsaðstoð af einhverju tagi síðustu 12 mánuðina og innan við helmingur býr í eigin húsnæði. Svöruðu 6,3% af þýðinu eða alls 1.453 einstaklingar.
Hvað myndir þú vilja sjá á stefnuskrá stjórnmálaflokka til þess að bregðast við þessu?
„Í fyrsta lagi er ég hissa á því að þetta sé ekki á radarnum í kosningabaráttunni. Í öðru lagi þá vil ég sjá afkomuöryggi fyrir alla vera á dagskrá, eki síst öryrkja og aldraðra. Það sem er dálítið dapurt er að við erum að sjá þessar niðurstöður trekk í trekk og þetta er orðið nánast samfélagslega viðurkennt að það að veikjast þýðir fátæktargildra. Það á ekki að vera þannig og við eigum að hafa meiri metnað sem samfélag heldur en það,“ svarar Drífa.
Það sem henni finnst vekja sérstaka athygli er staða einstæðs fatlaðs fólks með börn en tæplega níu af hverjum tíu einhleypum og einstæðum foreldrum á erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman. Um helmingur einstæðra foreldra og einhleypra býr þá við skort á efnislegum gæðum.
„Við vitum að húsnæðiskostnaðurinn er gríðarlega íþyngjandi, við erum með tæki til þess að koma til móts við það, segir hún og nefnir í því samhengi húsaleigubætur, barnabætur og önnur félagsleg úrræði. „Þannig að það er eiginlega ótrúlegt að þetta sé ekki hærra á dagskrá en þetta. Við erum að tala um þúsundir fólks sem búa við sárafátækt vegna veikinda og það er ekki boðlegt,“ segir Drífa.
Þar kom einnig fram að 23% fatlaðra kvenna og 15% fatlaðra karla myndu treysta sér á vinnumarkað, í 25% starfshlutfall eða minna. 12% töldu það ekki borga sig vegna tekjuskerðinga, 18% óttuðust skerðingar og/eða kröfur frá Tryggingastofnun, 55% treystu sér ekki vegna heilsufars og 15% voru í endurhæfingu eða námi.
Sagði Drífa að lækka þyrfti þröskuldana inn á tekjumarkaðinn og gera hann mannlegri auk þess að skapa þyrfti fleiri hlutastörf fyrir þennan hóp.
Spurð hvernig það sé hægt segir Drífa að það geti reynst erfitt fyrir fatlað fólk að leita inn á vinnumarkaðinn, þar sem það óttast skerðingar.
„Það er ekkert skrýtið að fólk hiki við að fara út á vinnumarkaðinn, vegna þess að það óttast því að það komi í bakið á því. Segjum sem svo að þú farir út á vinnumarkaðinn og getur síðan ekki sinnt vinnunni, og ert búin að lenda í einhverri skerðingu sem er erfitt að vinda ofan af. Þú lendir í skuld við Tryggingastofnun. Þetta er bara raunverulegur ótti fólks. Þetta ómannúðlega kerfi hvar sem þú ferð,um leið og þú reynir að létta þér lífið eða bjarga þér einhversstaðar, þá getur það haft ófyrirséðar afleiðingar,“ segir Drífa.
Hlutfall fatlaðs fólks sem býr í eigin húsnæði hefur farið lækkandi frá árinu 2009; nú býr 47% fatlaðs fólks í eigin húsnæði en árið 2009 var hlutfallið 68%. Fleiri búa nú í leiguhúsnæði (44%) en áður bjuggu 25% í leiguhúsnæði.
39% fatlaðra eru mjög óánægð með fjárhagsstöðu sína rúm 30% frekar óánægð, 21% hvorki ánægð né óánægð, 8% frekar ánægð og 2% mjög ánægð.