„Ég tók upp byssuna og byrjaði að skjóta“

Angj­el­in Sterkaj ásamt verjendum í héraðsdómi í dag.
Angj­el­in Sterkaj ásamt verjendum í héraðsdómi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrstur til þess að veita skýrslu í Rauðagerðis-málinu er Angj­el­in Sterkajs, sá sem játað hefur morðið á Armando Beqirai í Rauðgerði þann 13. febrúar síðastliðinn. 

Hann situr nú gengt dómara og svarar spurningum hans með túlk við hlið sér. Angjelin er frá Albaníu. Hann var beðinn af dómara að lýsa atburðunum er leiddu til morðsins á Armando. Angjelin liggur lágt rómur. 

Armando hafi haft í hótunum við sig

Angjelin segir að Armando og fleiri menn hafi beðið hann, á heimili Armandos, að „taka“ börn Antons Kristins Þórarinssonar, gjarnan þekktur sem Toni. Hann lýsti því einnig að þeir hafi ætlað að þvinga sig til þess að innheimta skuld Tona, upphæð 50 milljónir. Var þannig meðal annars stungið upp á því að „taka“ börn Tona – ræna þeim. 

Toni þessi er einn þeirra sem upphaflega var færður í gæsluvarðhald vegna málsins. 

Angjelin segir að sér hafi verið hótað lífláti og börnum sínum hótað lífláti, því hafi hann ákveðið að kaupa sér byssu og það segir hann að margir hefðu síðan fengið að vita og því vonaði hann að mennirnir myndu telja hann ógnvænlegan og láta hann vera. 

Angjelin segir að hann hafi farið í snjósleðaferð þann 11. febrúar, tveimur dögum fyrir morðið, og þar hafi hann fengið símtal frá Armando sem hafði í hótunum við hann. 

„Ég ætla að skera þig á háls. Ég ætla að skera börnin þín á háls," segir Angjelin að Armando hafi sagt við sig í símann. Hann lýsir því svo að Armando hafi hótað því að senda fólk heim til fjölskyldu hans í heimalandi hans, Albaníu. 

Angjelin sagði þá við Armando að hann myndi svara fyrir þær gjörðir sem Armando hótaði að gera. Angjelin lýsti því þó fyrir dómara í dag að hann hafi verið hræddur við Armando og óttast að hann myndi láta hótanir sínar verða að veruleika. 

Íslendingur viðriðinn

Þann 12. febrúar, daginn fyrir morðið, segist Angjelin hafa farið á bíl Tona í Borgarfjörð, hitti hann þar fyrir ákærða Shpetim Qerimi og tjáði honum að fólk væri að hóta sér. Þetta segir Angjelin að hafi verið seint um kvöld og hafði hann morðvopnið með í fórum sér, skammbyssu. 

Þá segir Angjelin að hann hafi sett byssuna í tösku og beðið ákærðu Claudiu Sofiu Coel­ho Car­val­ho að fara með töskuna að heimili sínu. 

Angjelin segir þó að hvorki Claudia né Sphetim hafi getað vitað að skammbyssan væri í töskunni. 

Síðan segir Angjelin að hann hafi farið úr Borgarfirði þegar runninn var upp 13. febrúar. Hann segist hafa komið til Reykjavíkur, hringt í Claudiu sem hann segir að hafi haft húslykla hans, beðið hana síðan um að sækja Shpetim.

Eftir að hafa síðan dvalist að heimili Sphetim segir Angjelin að hann hafi beðið Claudiu um að skutla sér heim, þar sem fólk úr undirheimum Reykjavíkur beið hans og bað hann þá Claudiu að keyra örlítið lengra og leggja í stæði. Hann hafi þá stigið út úr bílnum og byrjað að labba að húsi sínu.

Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho.
Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hræddur við undirheimafólk

Hann segist þá hafa séð að fólk biði hans heima hjá sér og segist því hafa fengið sé smá göngutúr og var með húfu til þess að dulbúast. Hann vildi bíða þar til fólkið væri farið. Um kortéri seinna kom hann heim til sín og beið með höndina á byssunni, að eigin sögn. Angjelin segist hafa verið hræddur þar sem hópur fólks úr undirheimum Reykjavíkur beið á heimili hans. 

Claudia tjáði Angjelin um klukkan 23 að kvöldi 13. febrúar hvar Armando væri. Angjelin segist enn hafa verið hræddur og viljað keyra í sumarhús og bað hann Sphetim um að koma með sér. 

Hins vegar hafi Angjelin og Sphetim farið í Rauðagerði og bað Angjelin Sphetim um að keyra. Hann ætlaði bara að hitta Armando undir fjögur augu og vildi ræða við hann. Armando var í bílskúr sínum, að sögn Angjelin, og þegar hann tók um byssu sína í hillu í bílskúrnum segir Angjelin að hann hafi tekið upp skammbyssu sína og setja á hana hljóðdeyfi. 

Angjelin segir að Armando hafi hótað sér lífláti og börnum hans lífláti þegar hann sá að Angjelin var mættur. Þá hafi hann haft byssu sína niðri með hliðum en þegar Armando ætlaði að ráðast á sig:

„Ég tók upp byssuna og byrjaði að skjóta,“ segir Angjelin.

Því næst fór Angjelin í bílinn, þar sem ákærði Sphetim sat, og segir hann að Sphetim hafi ekki vitað að hann hafi rétt í þessu drepið Armando Beqirai. 

„Ég var ekkert að segja neinum að ég hafi drepið hann.“

Fullyrðir að hann hafi einn vitað um morðið

Því næst keyrðu þeir í Borgarfjörð og Sphetim vildi fara út að kasta þvagi á miðri leið. Þar hafi Angjelin stigið út úr bílnum og kastað byssunni út í sjó. Hann dreif þó ekki alla leið, gekk að byssunni og reyndi aftur. Hann var með föt í bílnum til skiptana og tók að hafa fataskipti. 

Hann hafi þá hringt í Claudiu og spurt hana hvað hún væri að gera. Hún kvaðst vera heima hjá Angjelin og setið að drykkju. Angjelin spurði hana þá hvort hún vildi koma í Borgarfjörðinn að drekka með sér. 

Dómari grípur þá inn í og spyr Angjelin hvort hann sé meðvitaður um að ákærðu í málinu séu ákærðir fyrir samverknað. Spyr hann hvort Angjelin haldi því fram að enginn hafi vitað um morðið. 

Það segir Angjelin að hafi ekki verið, enginn hafi vitað um morðið fyrir það né strax á eftir. 

Uppfært 11:04

Málið snýst sem fyrr um það hver þáttur hinna fjögura ákærðu var í málinu. Angjelin hefur þegar játað, eins og fyrr segir, og segist hafa verið einn að verki. 

Ákæruvaldið vill þó meina að hin þrjú ákærðu séu samsek og spyr Kolbrún Benediktsdóttir héraðssaksóknari Angjelin hver þáttur hinna hafi verið í málinu. Spyr hún oft og mörgum sinnum spurningum, sem ætla má að séu til þessa fallnar að varpa ljósi á þátt hinna þriggja í málinu. 

Meðal annars spyr hún hvort og hvenær einhverjir aðrir vissu af málinu, hvort t.d. Claudia hafi vitað að skammbyssa væri í tösku þeirri er hún var beðin að færa Angjelin, hvort Sphetim hafi vitað að Angjelin hygðist myrða Armandio þegar hann keyrði hann í Rauðagerði. 

Angjelin lýsir því, sem fyrr, að hann hafi ekki ætlað að myrða Armando þegar hann hitti hann í Rauðagerði. Hann hafi haft byssu meðferðis vegna þessa að Armando var mikill í vexti og hafði áður haft í hótunum við hann. Hann hafði haft byssuna niður með hliðum allt þar til Armandi hafi gert sig líklegan til þess að ráðast á hann. 

Kolbrún sýnir á skjávarpa myndir af vettvangi úr lögregluskýrslu og er Angjelin beðinn um að lýsa málsatriðum út frá henni. Einnig er sýnd mynd af morðvopninu, skammbyssu með hljóðdeyfi, um 40cm að lengd, og staðfestir Angjelin að það sé vopnið sem um ræðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert