Fatlaðir neita sér um heilbrigðisþjónustu

Af fundinum í dag þar sem skýrslan var kynnt. Frá …
Af fundinum í dag þar sem skýrslan var kynnt. Frá vinstri: Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, Drífa Snædal forseti ASÍ og formaður stjórnar Vörðu, Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB og stjórnarmaður í Vörðu, sem og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við bága fjárhagsstöðu og er andleg og líkamleg heilsa þeirra slæm. Hafa þau flest neitað sér um heilbrigðisþjónustu og finna þau einnig fyrir félagslegri einangrun og fordómum.

Þetta sýna niðurstöður spurningakönnunar Vörðu sem gerð var fyrir Öryrkjabandalag Íslands á dögunum. Könnunin var lögð fyrir í maí og júní á þessu ári og er hún ætluð öllum þeim sem eru á örorkulífeyri, örorkustyrk og endurhæfingarlífeyri. Svöruðu 6,3% af þýðinu eða alls 1.453 einstaklingar.

Var markmið könnunarinnar að varpa ljósi á stöðu fatlaðs fólks á Íslandi hvað varðar fjárhag þess, félagslega stöðu, viðhorf til þjónustustofnana, viðhorf til breytinga á almannatryggingakerfinu, atvinnuþátttöku og heilsufar.

Fjárhagsstaða og heilsa slæm

Í niðurstöðum skýrslunnar sem unnin var upp úr könnuninni kemur fram að tæplega 80% af fötluðu fólki á Íslandi eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og um 60% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum. Þá búa hátt í 40% við skort á efnislegum gæðum. 

Af þessum hópi eru einstæðir foreldrar og einhleypir í hvað mestu vandræðum en um 90% þeirra eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og um helmingur býr við skort á efnislegum gæðum. Bitnar þetta einnig á uppeldi barna þar sem fjórir af hverjum tíu einstæðum foreldrum telja sig ekki geta boðið börnunum sínum upp á jafn næringarríkan mat og þeir hefðu kosið. Auk þess sem kostnaður vegna skipulagðra tómstunda getur reynst þeim ofviða.

Andleg og líkamleg heilsa fatlaðs fólks á Íslandi á einnig undir högg að sækja en rúmlega 80% þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu. Höfðu þá 60% neitað sér um tannlæknaþjónustu, 52% um sálfræðiþjónustu. 37% um sjúkraþjálfun, 36% þjónustu sérfræðilækna og 35% geðheilbrigðisþjónustu. Níu af hverjum tíu sögðu kostnað þjónustunnar helstu fyrirstöðuna.

Er meirihluti fatlaðs fólks sammála um að hækka þurfi örorkulífeyri og aðrar greiðslur til að bæta almannatryggingakerfið. Mikinn vilja er að finna meðal þeirra hvað varðar þátttöku á vinnumarkaði en vegna heilsuleysis sjá þau sér ekki fært um að gera slíkt.

Fordómar og félagsleg einangrun

Niðurstöður benda einnig til þess að yfirgnæfandi meirihluti fatlaðs fólks glími einnig við félagslega einangrun og finna hlutfallslega fleiri ungir karlar, í samanburði við ungar konur, fyrir henni. Rúmlega helmingur telur félagslega einangrun hafa aukist í faraldrinum.

Mikill meirihluti finnur einnig fyrir fordómum í samfélaginu vegna fötlunar sinnar. Þeir sem hafa upplifað þá finna m.a. fyrir þeim í  í heilbrigðiskerfinu, innan fjölskyldunnar, meðal vina, í atvinnuleit og þar sem þau sækja sér þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert