Lét vita þegar bíll Armando hreyfðist – „Hey sexy“

Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho Rauðagerðismálið í Héraðsdómi Reykjavíkur - Mannadráp …
Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho Rauðagerðismálið í Héraðsdómi Reykjavíkur - Mannadráp í Rauðagerði - Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho gaf skýrslu í aðalmeðferð í Rauðagerðis-málinu þegar þinghald hófst aftur eftir hlé klukkan 12:45. Claudia neitar sök í málinu en henni er gefið að sök að hafa tekið þátt í morðinu á Armando Beqirai 13. febrúar á þessu ári.  

Claudia hafði það verkefni, að beiðni Angjelin Sterkajs, þess sem játað hefur á sig morðið, að fylgjast með bíl í eigu Armando og átti hún að láta hann vita ef Armando færi á stjá að kvöldi 13. febrúar. 

Hún segist ekki hafa vitað að Angjelin hafi ætlað að ráða Armando bana, hún hafi verið beðin um að sinna ákveðnum verkefni og því gerði hún það. Eins og hún segir sjálf:

„Ég geri vanalega bara það sem ég er beðin um að gera,“

Einn fjögurra ákærða, Murat Selivrada, sýndi henni hvar bíl Armando væri að finna og þegar hún hafði beðið drykklanga stund sá hún loks að bíll hans hreyfðist. Gerði hún þá eins og henni var sagt og lét Angjelin vita með smáskilaboðum: „Hey, sexy.“

Murat Selivrada.
Murat Selivrada. mbl.is/Kristinn Magnússon

Var hrædd við að segja frá

Claudia segist hafa kynnst Angjelin í júlí í fyrra og hefur að eigin sögn aldrei komist í kast við lögin. Því hafi hún verið hrædd þegar henni varð ljóst að Angjelin hafi myrt Armando. Það hafi henni orðið ljóst þegar hún sá fréttir af andláti Armando, morguninn eftir morðið, og síðan séð Angjelin verið að eyðileggja skó sína. 

Spurð að því hvers vegna hún fór ekki til lögreglu, eða þá af hverju hún sagði ekki lögreglu frá þessu þegar hún var fyrst færð í varðhald, segir Claudia að hún hafi verið hrædd um að kjafta frá af ótta við hvað Angjelin myndi segja eða gera. Hann hafi vissulega aldrei hótað henni en hún vissi ekki hvað honum dytti í hug þegar svona mikið lægi við. 

Claudia talar portúgölsku og hefur túlk sér til aðstoðar. Bæði Guðjón Marteinsson dómari og ákæruvald hafa lokið sínum spurningum til Claudiu auk verjenda í málinu. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari vill meina að Claudia hafi tekið þátt í því að skipuleggja morðið á Armando en því neitar hún, eins og fyrr segir. 

Þolinmæði dómara á þrotum

Þegar Claudia hafði lokið sér af við að lýsa atburðum kvöldið 13. febrúar stuttlega fyrir dómara og síðan í lengra máli fyrir Kolbrúnu varahéraðssaksóknara kom að verjanda Claudiu sjálfrar að spyrja.

Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho ásamt verjanda á leið í dómssal. …
Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho ásamt verjanda á leið í dómssal. Túlkur Claudiu fylgir í humátt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerði hann það með miklum herkjum, enda gekk illa að varpa upp á skjávarpa myndbandi úr öryggismyndavél sem hann vildi vísa til með spurningum sínum. Var þá verið að rekja ferðir Claudiu og annarra ákærðra kvöldið fyrir morðið og var dómarinn orðinn þreyttur á að verið væri að gera það enn einu sinni. 

Bað hann því verjanda Claudiu, oftar en einu sinni, að koma sér að efninu og spyrja „konkret“ spurninga. 

„Það er margbúið að rekja atburði föstudagsins. Þolinmæði mín er á þrotum hvað þetta varðar,“ sagði Guðjón Marteinsson dómari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert