Mæting í seinni bólusetningu barna á aldrinum 12 til 15 ára í dag var fín og gekk bólusetningin vel að sögn Dagnýjar Hængsdóttur, verkefnastjóra bólusetninga hjá heilsugæslunni. Þessi hópur fær bólusetningu með bóluefni Pfizer.
Færri börn en í fyrri bólusetningu þurftu þá að fara afsíðis og fá bólusetningu í lokuðu rými að hennar sögn.
„Það var rólegra tempó en síðast, við vissum meira út í hvað við vorum að fara og það var ekki mikið stress í gangi. Þau voru brattari núna,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Hafið þið fundið fyrir því að færri börn mæti í bólusetningu eftir að borið hefur á gagnrýnisröddum gegn bólusetningum þeirra?
„Nei, við áttum von á að þau myndu öll aftur mæta og það gerðu þau.“
Á morgun verður árgangi 2008 og 2009 boðið í seinni bólusetningu og hefur þá bólusetningu aldurshópsins 12 til 15 verið lokið.
Þá er bólusett alla virka daga á milli 10.00 og 15.00 á Suðurlandsbraut 34 með Pfizer, Moderna og Janssen en bóluefnið Astra Zeneca er eingöngu í boði á föstudögum.