Verjendur allra fjögurra sakborninga í Rauðagerðis-málinu voru nokkuð ósáttir við framsetningu ákveðinnar lögregluskýrslu, þegar aðalmeðferð málsins hófst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Umrædd skýrsla er greinargerð lögreglu um eigin rannsóknarhætti í málinu. Gerðu verjendur athugasemdir við fullyrðingar í greinargerðinni þar sem lögregla virðist álykta ansi frjálslega um aðild sakborninganna að málinu.
Nokkur hiti færðist í leikinn undir lok þinghalds í dag, en því lauk formlega um fimmleytið síðdegis, þegar fyrir réttinn kom lögreglukona sem var ein þeirra er fór með yfirumsjón rannsóknar málsins.
Var hún sérstaklega spurð út í niðurlag umræddrar greinargerðar, sem hún tók þátt í að setja saman. Á einum stað segir: „Lögregla telur, óháð framburði sakborninga að...“ eins og Guðjón Marteinsson dómari rakti í gær. Gerði hann miklar athugasemdir við að verið væri að leggja skýrsluna fram í málinu.
Geir Gestsson, verjandi eins sakborninganna í málinu, lýsti því fyrir mbl.is af hverju verjendurnir væru ósáttir.
„Það er semsagt þannig að ákæruvald leggur fram skýrslu frá lögreglu, sem á að vera samantekt á rannsóknaraðgerðum, á hún þá bara að lýsa því í hverju rannsóknaraðgerði felast, en ekki lýsa neinum kenningum lögreglu. Í þessari greinargerð koma fram alls konar ályktanir og kenningar lögreglu um hverjar niðurstöður rannsóknarinnar eru,“ sagði hann við mbl.is að þinghaldi loknu í dag.
Hann segir að sakfelling í refsimáli sem þessu megi ekki byggja á álíka skýrslu og verjendur í málinu gerðu athugasemd við. Hann segir að hætta sé á að dómurinn taki skýrsluna til grundvallar við ákvörðun sektar, þótt í skýrsluni komi aðeins fram ósannaðar kenningar lögreglu um sekt sakborninga.
„Sakfelling í refsimáli verður einungis byggð á frumgögnum en ekki svona skýrslu lögreglu og þetta virðist vera eitthvert viðbótarskjal ákæru, sem búið er að leggja fram án þess að það sé lagaheimild fyrir því,“ útskýrir Geir og bætir við:
„Það sem er hættulegt við það er þá að dómstólar lesi samantektina og leggi hana til grundvallar vegna þess að gögn málsins eru svo flókin og viðamikil að það er freistandi að horfa á samantekt lögreglu og leggja hana til grundvallar málsins.“
Það sem Geir bendir svo einnig á er skortur á upplýsingum í greinargerð lögreglu, einmitt um aðild skjólstæðings síns í málinu, Murat Selivrada. Murat er gefið að sök að hafa bent öðrum sakborningi, Claudiu Sofiu Coelho Carvalho á bíl hins látna, sem síðan benti Angeljin Sterkasj á bílinn. Það leiddi til þess Angelji, sem varð Armando Beqirai að bana í Rauðagerði 13. febrúar sl., að hann vissi að hann væri á heimili sínu að kvöldi hins örlagaríka dags.
Eins og Geir rekur útskýrðu bæði Claudia og Angjelis í skýrslutöku lögreglu að Angjelis hafi veitt Claudiu þau fyrirmæli, sem Murat er síðan ákærður fyrir að hafa framfylgt.
„Síðan er það þetta,“ segir Geir. „Í þessari samantekt lögreglu – og það er það sem er svo alvarlegt við þetta – að þá er ekki tekið mið af því að ákærði Angjelin segist sjálfur hafa gefið Claudiu þau fyrirmæli sem Murat er ákærður fyrir og hún segir það líka, hjá lögreglu í yfirheyrslu. Þau gefa bæði framburði í sitt hvoru lagi, á meðan þau eru í gæsluvarðhaldi, þar sem hún segir „Angjelin gaf mér þessi fyrirmæli“. Angjelin segir sjálfur „Ég gaf henni þessi fyrirmæli“. Það eru engin merki um þetta í greinargerð lögreglu um málsatvik, engin. Þarna, vil ég meina, er haft rangt við,“ segir Geir að lokum.
Aðalmeðferð í Rauðagerðis-málinu heldur áfram á morgun og koma þá og gefa skýrslu lögregluþjónar, sérfræðingar og önnur vitni. Greint verður frá framvindu mála á mbl.is.