Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, kveðst ósáttur við framferði Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem hefur nú gefið út að hún vilji breyta reglugerð um blóðgjafir fyrir kosningar. Telur Sveinn breytingar á reglugerðinni hafa skaðleg áhrif á starfsemi Blóðbankans og finnst honum „blóðbankaþjónustan vera sett fram sem leikmunur í einhverju kosningaleikriti“.
Svandís kynnti í byrjun mánaðar drög að breytingum á reglugerðum um blóðgjöf þar sem m.a. er tekið fram að ekki megi lengur mismuna blóðþegum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða á borð við kynhneigð.
Sveinn gagnrýndi þessi drög og taldi þau óskynsamleg þar sem leggjast þyrfti í áhættugreiningu áður en slíkar ákvarðanir væru teknar þar sem fyrri rannsóknir hefðu bent til þess að blóðbornir sjúkdómar á borð við HIV væru mun algengari í hópi karlmanna sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum (MSM-hópurinn) en hjá afganginum af þjóðinni. Benti hann einnig á að nauðsynlegt væri að taka upp nákvæmari skimunaraðferð, NAT-skimun, til að tryggja öryggi blóðþega til hins ýtrasta, enda væru það fyrst og fremst mannréttindi að þiggja öruggt blóð, en ekki að gefa það.
Svandís vildi ekki tjá sig um gagnrýni Sveins þegar mbl.is falaðist eftir því.
Sveinn telur áhugavert að heilbrigðisráðherra vilji skyndilega taka þetta málefni fyrir kosningar þar sem ekki hafi legið mikill vilji til að takast á við það undanfarin ár með „faglegum hætti“.
„Árið 2018 var Blóðbankinn kallaður á fund ráðherra um þessi málefni og ráðleggingar gefnar um áhættugreiningu og NAT-skimun. Síðan hafa liðið þrenn fjárlög og ekki bólar á neinni vinnu hvað varðar áhættugreiningu. Þess vegna er mjög skrítið að ráðherra setji þetta upp með þessum hætti,“ sagði Sveinn.
„Í öllum þeim löndum sem ég þekki til hafa heilbrigðisyfirvöld unnið náið með þeim blóðbönkum og ráðgjafarnefndum um útfærslu þess og gefið góðan tíma með frest og aðlögun að nýjum reglum. Þetta kollvarpar því hvernig við spyrjum blóðgjafa og þetta hefur miklu djúpstæðari áhrif á vinnuferla í blóðbankanum en ráðherra virðist átta sig á. Því lít ég þetta mjög alvarlegum augum og tel algjörlega óverjandi að ráðherra ætli að fara þá leið að gefa engin andsvör á málið sem er til umsagnar í samráðsgátt og virðist samkvæmt þessu ætla að gefa sér einn til tvo daga til að taka stefnumarkandi ákvörðun í lok síns starfsferils sem heilbrigðisráðherra,“ bætir hann við.
Kveðst Sveinn einnig ósáttur við orðalagið sem notast er við í drögum ráðherra og telur hann það „ómálefnalegar dylgjur af hálfu ráðuneytisins að þvæla umræðuna“ með slíkum hætti í breytingartillögum sínum. Vísar hann þá meðal annars til þess að tekið sé fram að óheimilt verði að „mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti“.
Tekur hann fram að Blóðbankinn hafi ekki verið með ómálefnaleg sjónarmið. Þess þá heldur hafi hann byggt tillögur sínar á faglegri vinnu víða um heim, sem hefur verið komið áleiðis til ráðgjafarnefndar á síðustu þremur árum.
„Blóðbankinn hefur ekki verið með reglur byggðar á kynhneigð heldur á grunni kynhegðunar líkt og öll önnur lönd hafa gert, en þó með mismunandi móti eftir stöðu áhættugreininga og skimunaraðferða í viðkomandi landi. [...] Ekki verður annað séð en að ráðuneytið sé með yfirlýsingum sínum og fylgitexta að sá fræjum óvildar í garð Blóðbankans og starfsfólks bankans, sem er gersamlega óverðskuldað. Slíkt atferli getur valdið óafturkræfum skaða fyrir alla heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Blóðbankinn lítur slíka hluti mjög alvarlegum augum.“
Leggur hann þá til nýjar breytingar á reglugerðinni í stað þeirra sem heilbrigðisráðherra lagði upp með. „Við 1. málsgrein 1. greinar bætist nýr stafliður sem verður svohljóðandi: Skilmerki heilbrigðisyfirvalda um hæfi blóðgjafa til að gefa blóð skulu ætíð byggð á faglegum forsendum í kjölfar áhættugreiningar í íslensku þýði og að fengnu áliti ráðgjafarnefndar, Lyfjastofnunar, Landspítala og Blóðbankans í öllum mikilvægum málum.“