Umferð virkra ferðamáta, svo sem gangandi og hjólandi, verður í forgangi í nýju hverfi sem áætlað er að rísi í Skerjafirði. Þetta segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Þar er vitnað í bókun borgarstjórnarmeirihlutans þar sem segir segir að bifreiðar „fái í mesta lagi um þriðjung af götukassanum“ og hugmyndir séu um rými þar sem bílar eru algjörlega víkjandi nema vegna vöruflutninga.
Í tilkynningunni segir jafnframt að áhersla verði á samskipti fólks og að „skapa góða nágrannastemningu“. Götur verði grænar og með fallegum dvalarsvæðum.
Ráðgjafi verkefnisins er Mandaworks í Svíþjóð undir stjórn Martins Arfalk sem kynnti hönnunarleiðbeiningarnar fyrir skipulags- og samgönguráði. Götumyndirnar sem Arfalk kynnti eru sagðar eiga það sameiginlegt að vera einstefnugötur og með grænt yfirbragð.
Í tilkynningunni segir að hönnunarmarkmiðin skiptist í fjóra flokka: Vistvænar samgöngur þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur eru í forgangi, lífseigan gróður til að skapa aðlaðandi umhverfi og hafa áhrif á loftslag, mannlíf þar sem íbúðagöturnar njóta góðs af forgangi gangandi vegfaranda og einstakt og áberandi yfirbragð hverfisins.
Þá er innblástur nýja Skerjafjarðar sagður vera dreginn frá Þingholtum og gamla Skerjafirði.
Nánar má lesa um nýja Skerjafjörð á vef Reykjavíkurborgar hér.