Erfiðara að fara í þríhliða samtal

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við kynningu lífskjarasamningsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við kynningu lífskjarasamningsins. mbl.is/​Hari

Kosningarnar til Alþingis og möguleg stjórnarskipti setja strik í reikninginn við endurskoðun kjarasamninganna á almenna vinnumarkaðinum, sem fer brátt í fullan gang.

Óformleg samtöl hafa átt sér stað á milli forystumanna Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og næstkomandi föstudag kemur launa- og forsendunefnd viðsemjenda saman til síns fyrsta fundar til að leggja mat á hvort forsendur samninganna hafa staðist.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Þurfa að ákveða bráðlega

Samningarnir eiga að gilda til 1. nóvember á næsta ári en ef ASÍ eða SA ákveða að segja samningunum upp núna vegna forsendubrests, þarf að ákveða það fyrir kl. 16 hinn 30. september næstkomandi.

Forsendurnar eru í þremur liðum og virðist óumdeilt að fyrstu tvær þeirra hafi staðist; kaupmáttur launa hefur aukist og vextir hafa lækkað. Hins vegar hafa stjórnvöld að mati ASÍ ekki staðið að fullu við gefin fyrirheit skv. yfirlýsingum sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við gerð lífskjarasamninganna, sem er þriðja forsenda samninganna.

„Það er alveg ljóst að þessar forsendur eru brostnar en þá kemur að hinu hvort það er tilefni til að segja upp samningunum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, og bendir á að forsendunefndin muni fjalla um það á fundum á næstunni.

Stjórnvöldin sem sömdu hafa ekki tækifæri til að efna 

Í samningunum segir að ef forsendur halda ekki beri að leita samkomulags um viðbrögð við því. Spurð um áhrif þess að þingkosningar fara fram á sama tíma og endurskoðun kjarasamninga stendur sem hæst segir Drífa að þetta sé mjög sérstök staða. „Í fyrsta lagi hafa stjórnvöld sem settu fram loforðin ekki tækifæri til þess að efna þetta. Síðan erum við líka í þeirri stöðu að það er erfiðara að fara í þríhliða samstarf eða samtal við stjórnvöld á þessum tímapunkti til þess að reyna að þétta samningana, vegna þess að við vitum ekkert hvernig stjórnvöld munu líta út. Það eru kosningar 25. september og það er held ég alveg borin von að það verði komin starfandi ríkisstjórn þann þrítugasta,“ segir Drífa.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að eins og forsendur samninganna blasi við þá verði vart um það deilt að kaupmátturinn hafi aukist og vextir hafi lækkað. „En eftir stendur kannski þriðja forsendan um efndir stjórnvalda og fundir okkar með ASÍ munu snúast um það.“

Að mati verkalýðshreyfingarinnar eru nokkur mál sem ekki hafa verið uppfyllt í yfirlýsingunni sem ríkisstjórnin gaf við gerð lífskjarasamninganna, það eru lífeyrismálin, húsnæðismál, starfskjaramál, félagsleg undirboð og verðtryggingarmálin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert