Gígbarmurinn rís hæst í 334 metra hæð

Gígbarmurinn er orðinn ansi hár.
Gígbarmurinn er orðinn ansi hár. Kristinn Magnússon

Í staðinn fyr­ir að breiða mikið úr sér und­an­far­inn mánuð hef­ur hraunið í Geld­inga­döl­um hlaðið upp lít­illi en frek­ar brattri dyngju. Gíg­barm­ur­inn á Fagra­dals­fjalli rís hæst í 334 metra hæð yfir sjó og aðeins vant­ar tæpa 20 metra upp á að hann nái sömu hæð og fjallið Stóri-Hrút­ur.

Þetta kem­ur fram á vef Jarðvís­inda­stofn­un­ar Há­skóla Íslands.

Nýj­ustu mæl­ing­ar sýna að meðaltal hraun­rennsl­is síðustu 32 daga er 8,5 rúm­metr­ar á sek­úndu. Um það bil helm­ing tím­ans var gosið nokkuð kröft­ug en þess á milli lá það niðri. Meðal­rennslið þegar það gaus úr gígn­um gæti því hafa verið um tvö­falt meira.

Hraunið er nú 143 millj­ón­ir rúm­metra og 4,6 fer­kíló­metr­ar að flat­ar­máli. Á þess­um mánuði sem liðinn er frá síðustu mæl­ingu og fram að þeirri nýj­ustu 9. sept­em­ber, hef­ur hraun runnið í vest­an­verða Mera­dali, Syðri Mera­dal og norður­hluta Geld­inga­dala og Nátt­haga.  Flat­ar­málið hef­ur auk­ist sára­lítið, enda hraun­rennslið verið mest á yf­ir­borðinu. Hraun­in í hverri hrinu hafa því ekki náð út að jaðrin­um á of­an­greind­um stöðum.

Frá­brugðið öðrum gos­um

Fram kem­ur að eld­gosið sé að mörgu leyti frá­brugðið öðrum gos­um und­an­far­inna ára­tuga. Flest hafi þau átt upp­tök i kviku­hólf­um und­ir meg­in­eld­stöðvum þar sem þrýst­ing­ur í hólf­inu og stærð þessi virðist ráða mestu um stærð og lengd goss. Í Fagra­dals­fjalli virðist aft­ur á móti aðstreym­isæðin og eig­in­leg­ar henn­ar ráða mestu um kvikuflæðið.

„Hegðunin frá í lok júní er mjög at­hygl­is­verð.  Held­ur dró úr fyrri hluta júlí en hraun­flæðið jókst aft­ur sam­fara því að regla komst á kviðuvirkn­ina um miðjan mánuðinn.  Frá lok­um júlí hef­ur meðal hraun­flæðið held­ur minna en þegar mest var.  Eng­in leið er að spá fyr­ir um gos­lok út frá hegðun­inni hingað til,“ seg­ir á vefsíðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert