Niðurskurður er eina ráðið

Sigríður Björnsdóttir.
Sigríður Björnsdóttir. mbl.is/Arnþór

„Niðurskurður er eina leiðin sem hægt er að nota hér á landi til að bregðast við riðusmiti,“ segir Sigríður Björnsdóttir, starfandi yfirdýralæknir. „Hér hafa menn ekki getað notað kynbótastarf til að takast á við riðuveiki eins og í mörgum öðrum löndum. Þar hafa verið ræktaðir upp fjárstofnar sem þola þetta. Við höfum ekki enn fundið hér hina verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé. Rannsóknir standa yfir og vonir bundnar við þær þegar til framtíðar er litið. En það er ekkert nýtt í hendi og því er niðurskurður eina leiðin.“

Riða greindist í fé frá Syðra-Skörðugili í Skagafirði á föstudaginn var. Skera þarf alla hjörðina sem er um 1.500 fjár, fullorðið fé og lömb. Hjörðin er öll talin vera smituð líkt og fjárhúsin og nánasta umhverfi. Engar vísbendingar eru um að riða í sauðfé ógni heilsu manna. Kjöti úr sýktum hjörðum er engu að síður fargað í varúðarskyni og það má ekki fara inn í fæðukeðjuna.

Riðusmit getur leynst víða en miðað við faraldsfræðina sem nú sést beinist athyglin aðallega að smiti frá kind til kindar. Meðgöngutími riðuveiki áður en einkenna verður vart getur verið 3-5 ár. Stysti meðgöngutími riðuveiki sem vitað er um er sjö mánuðir. „Þessi langi meðgöngutími gerir þetta erfitt og riðuveiki er illgreinanleg í byrjun,“ segir Sigríður.

Riðuveiki hefur greinst á nokkrum bæjum í Skagafirði undanfarin ár. …
Riðuveiki hefur greinst á nokkrum bæjum í Skagafirði undanfarin ár. Smit greindist á bæ þar á föstudagþar sem eru um 1.500 fjár. Veikin smitast á milli kinda en smitið getur leynst í jarðvegi, fjárhúsum og víðar. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Riðan barst til landsins með breskum hrúti sem kom hingað í gegnum Danmörku árið 1878. Það var löngu áður en karakúlféð kom árið 1933 og flutti með sér garnaveiki, votamæði, þurramæði, visnu og kýlapest.

Baráttan gegn riðuveikinni á sér orðið langa sögu. Býsna vel hefur gengið að ráða niðurlögum veikinnar í mörgum héruðum landsins.

Vel áleiðis í baráttunni

„Við erum komin vel áleiðis í þessari baráttu á landsvísu. Þetta getur leynst í jarðvegi og við getum ekki útilokað endurkomu riðusmits hér og þar. Samt er að teiknast upp sú mynd að það sé að takast að kveða riðuna niður. Svo koma upp svona tilfelli í Skagafirði. Menn geta fyllst vonleysi þegar þetta kemur upp á mörgum bæjum á tiltölulega skömmum tíma. Samt hefur baráttan við riðuna heppnast á mjög mörgum svæðum. Við verðum að líta á stóru myndina. Þetta er hægt og við tökumst á við þetta,“ segir Sigríður.

Riða í sauðfé þekkist í öðrum löndum. Þar er víða til staðar verndandi arfgerð sem verndar gegn riðu og hefur tekist að rækta þann eiginleika upp í fjárstofnum. Þótt fé fái í sig riðupróteinið þá veldur það ekki sjúklegum breytingum. Þessi verndandi arfgerð hefur ekki fundist hér. Sigríður segir sjúkdóminn hafa haft meiri áhrif hér þegar hann kom til landsins en þekktist í öðrum löndum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 14. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert