Fullvinnsla í GAJU stöðvuð vegna myglu í burðarvirki

GAJa, gas- og jarðgerðarstöð SORPU.
GAJa, gas- og jarðgerðarstöð SORPU. Ljósmynd/Aðsend

Myglugró greindist í ágúst í límtréseiningum í þaki og burðarvirki GAJU,  gas- og jarðgerðarstöð SORPU. Þar af leiðandi hefur fullvinnsla stöðvarinnar verið stöðvuð.  

Einungis er ár síðan verksmiðjan var ræst fyrst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SORPU.

Þar segir að myndun myglugróa er hluti af moltugerðarferli þar sem lífrænn úrgangur brotnar niður og eðlilegt að mygla finnist við vinnslu. 

Þá segir að upplýsingagjöf til stjórnar hafi verið verulega ábótavant og jafnvel villandi á byggingartíma stöðvarinnar. „Það kom meðal annars fram í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem núverandi stjórn kallaði eftir,“ segir í tilkynningunni. 

Haft er eftir Líf Magneudóttur, stjórnarformanni SORPU, að framkvæmdastjóra hafi verið falið að leita skýringa á mygluvextinum. Hún segir stöðuna vekja upp spurningar um hönnun og efnisval hússins. 

Von á gjaldskrárhækkun

Gjaldskrárhækkun hjá SORPU er væntanleg þar sem brennanlegur úrgangur verður fluttur úr landi til brennslu. Útflutningurinn er mun dýrari valkostur en urðun. 

„Fjögur sorpsamlög á suðvesturhorni landsins auk umhverfis- og auðlindaráðuneytis vinna nú að forverkefni til undirbúnings á framtíðarlausn til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað
urðunar. Til að draga úr kostnaði, losun gróðurhúsalofttegunda og auka endurvinnslu er mikilvægt að heimili og fyrirtæki flokki enn betur og skili endurvinnsluefnum í réttan farveg,“  segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert