Grímsvötn tilbúin að gjósa

Horft yfir Grímsvötn af Grímsfjalli.
Horft yfir Grímsvötn af Grímsfjalli. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Íshellan yfir eldstöðinni Grímsvötnum í Vatnajökli heldur áfram að lyftast. Þetta sýna mælingar GPS-stöðvar sem staðsett er ofan á jöklinum. Landris mælist einnig í Grímsfjalli sjálfu og stafar það af kvikusöfnun.

„Íshellan hækkar fyrst og fremst vegna þess að leysingavatn rennur inn í vötnin,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga, í samtali við mbl.is.

GPS-stöðin ofan á jöklinum er ekki sú eina sem risið hefur undanfarin misseri. Önnur stöð er einnig skammt frá, en sú er aftur á móti ekki á Vatnajökli sjálfum, heldur í klöpp utan í Grímsfjalli, sem skagar upp úr jöklinum suðaustur af Grímsvötnum.

„Sú stöð sýnir landris og það er vegna kvikusöfnunar. Við höfum séð hvernig sú stöð rís, fellur svo í gosi, og byrjar síðan að rísa aftur,“ segir Benedikt.

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Í hærri stöðu en þau hafa verið mjög lengi

Á síðasta ári hafði þenslan í Grímsfjalli náð sama marki og fyrir síðasta gos, sem varð árið 2011. Af þeirri ástæðu var litakóði fyrir flugumferð yfir eldstöðinni færður yfir í gult í lok september, eða fyrir rétt tæpu ári síðan.

„En það sem er öðruvísi núna, miðað við síðasta gos, er að vötnin eru í hærri stöðu en þau hafa verið mjög lengi. Það gerir það að verkum að þegar jökulhlaup verður, þá mun eiga sér stað mjög snögg þrýstilétting. Það getur svo komið af stað gosi, miðað við þau gögn sem við höfum um fyrri gos í Grímsvötnum.“

Benedikt bendir á að jarðfræðingurinn Sigurður Þórarinsson hafi fyrstur sett fram kenningu um þessa keðjuverkun, um miðja síðustu öld. Hana byggði hann á sögulegum gögnum.

„Og þarsíðasta gos hagaði sér akkúrat þannig. Þá byrjaði hlaup og þegar það var komið vel á veg þá sáum við allt í einu að Grímsvötn voru að fara af stað. En þetta gerist bara þegar eldstöðin er í raun og veru tilbúin að gjósa, það er þegar allt kerfið er á mörkum og við það að fara í gang.“

Vaxandi skjálftavirkni

Grímsfjall hefur núna þanist meira út en það hafði síðasta sumar, þegar flugumferðarkóðinn fékk gulan lit.

„Landrisið heldur áfram,“ segir Benedikt. „En það er hægara en í upphafi. Það hægir á sér eftir því sem lengra dregur frá síðasta gosi. Það er einnig eitt af merkjunum, um að það sé að styttast í næsta gos. En það er stöðugt landris.“

Skjálftavirknin hefur að sama skapi farið smám saman vaxandi.

„Það er annað langtímamerki sem við höfum horft á, sem mögulegan undanfara Grímsvatnagosa. Öll gögn benda því til þess að Grímsvötn séu tilbúin að gjósa og að þau hafi verið það síðasta árið, ef ekki síðustu tvö.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka