Ekkert lát er á landrisi í Öskju. Risið nálgast nú tíu sentimetra frá því fyrst tók að bera á því í byrjun ágúst
Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga, greinir frá þessu í samtali við mbl.is.
Tæp vika er síðan land hafði risið um 6,5 til 7 sentimetra. Landrisið sést glögglega á GPS-stöð sem staðsett er inni í öskjunni. Að auki nýtast gervitunglamyndir til að staðsetja betur miðjuna á landrisinu. Þær eru teknar á nokkurra daga fresti.
„Þannig getum við fylgst með færslum upp á sentimetra, með því að bera nýjustu myndirnar saman við fyrri myndir. Þær sýna sambærilegt ris á við GPS-stöðina,“ sagði Benedikt í samtali við mbl.is í síðustu viku.