Öll starfsemi Kvistaborgar færist tímabundið í húsnæði Safamýrarskóla frá og með þriðjudeginum næstkomandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Ráðist verður í framkvæmdir á húsnæði leikskólans Kvistaborgar, vegna myglu- og rakaskemmda. Vonast er til að skólastarfið færist aftur í Fossvogsdalinn fyrir jól.
Leki kom upp í húsnæði Kvistaborgar vorið 2020 í húsnæði sem nýlega hafði verið gert upp. Í loftgæðamælingu verkfræðistofunnar Mannvits um sumarið kom eitt myglustrok út jákvætt og var það afhent umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar í júlí sama ár.
Leikskólinn fékk aftur á móti skýrsluna um málið ekki afhenta fyrr en í mars.
Fjallað hefur verið ítarlega um málefni Kvistaborgar í Morgunblaðinu og á mbl.is. Málið hefur einkennst af óánægju foreldra sem sakað hafa borgina um að halda eftir upplýsingum um málið og segja upplýsingagjöf til skammar.
Flutningur starfsemi leikskólans nú, og fyrirhugaðar framkvæmdir, voru kynntar fyrir starfsfólki og foreldrum á fundum í gærkvöldi.
Þar kom fram að verkfræðistofan Efla mælir með að farið verið í gagngerar endurbætur á elsta hluta skólans sem byggður var 1972.
Ákveðið var að flytja alla starfsemi skólans tímabundið í Safamýri 5 sem áður var Safamýrarskóli til að hægt verði að fara í undirbúning framkvæmda á meðan unnið er að hönnun og skipulagningu verksins.