„Við munum breyta Noregi“

Jonas Gahr Støre virðir fyrir sér fallegan vönd af kratarósum …
Jonas Gahr Støre virðir fyrir sér fallegan vönd af kratarósum eftir stórsigur Verkamannaflokksins í norsku þingkosningunum um helgina. JAVAD PARSA

„Það voruð þið sem gerðuð það. Kjósendurnir sýndu okkur traust. Við munum breyta Noregi... og heiminum,“ sagði Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins, í sigurræðu sinni eftir hreinan stórsigur flokksins í norsku stórþingskosningunum um helgina.

Hægriflokkur Ernu Solberg sá vart til sólar í þessum kosningum miðað við fyrri árangur og lauk keppni með 20,37 prósentum atkvæða á móti 26,26 prósentum Støre og Verkamannaflokksins eftir átta ár Solberg og Hægriflokks hennar við kjötkatlana. Nokkuð sem telja má óvenjulegt í Noregi þar sem vindarnir hafa löngum blásið til vinstri.

Hvað táknar þá ný vinstristjórn fyrir norskan almenning, nokkuð sem síðast sást þegar Jens Stoltenberg stjórnaði landinu?

Fólk fastráðið

Eitt af því sem Støre og Verkamannaflokkurinn leggja mikla áherslu á er að horfið verði frá tímabundnum ráðningum á vinnumarkaði, fólk skuli einfaldlega fastráðið þegar sýnt sé fram á að þörf sé fyrir fastar stöður, atriði sem hefur til dæmis verið umdeilt við olíuvinnslu í Vestur-Noregi þar sem svokallaðar innleigustöður hafa tíðkast um árabil, en með þeim er hægt að „skila“ starfsfólki til starfsmannaleiga eða fasts vinnuveitanda með engum fyrirvara og tilheyrandi tapi á yfirvinnu og öðrum hlunnindum.

Fyrsta janúar 2020 fækkaði norskum fylkjum úr 19 í 11. Þetta gæti breyst í stjórnartíð Verkamannaflokksins, sem líkast til mun mynda stjórn með Miðflokknum og Sósíalíska vinstriflokknum. Afstaða flokkanna þriggja er að íbúarnir skuli ráða um sameiningarmál og hefur þar sameining norðurnorsku fylkjanna Troms og Finnmerkur verið nefnd sem dæmi, en henni var mótmælt harðlega og var í raun þröngvað upp á íbúana í stjórnartíð Ernu Solberg.

Útkallstími styttur

Íslenskir fjölmiðlaneytendur minnast margir hverjir hörmulegs máls í Mehamn vorið 2019 þegar íslenskur sjómaður skaut hálfbróður sinn til bana, ef til vill fyrir slysni, þannig var málið dæmt, sökunautur var þar einn til frásagnar. Var lögregla fylkisins harðlega gagnrýnd fyrir að vera rúmar 40 mínútur á staðinn vegna þess hve langt er milli lögreglustöðva nyrsta fylkis Noregs. Støre hyggst fjölga lögreglustöðvum og stytta útkallstíma lögreglu.

Hvorir tveggju, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, vilja bæta tannheilsu Norðmanna og láta Tryggingastofnun Noregs, Folketrygden, greiða stærri hluta nauðsynlegra tannviðgerða en tíðkast hefur. Flokkarnir eru þó ekki á eitt sáttir um greiðsluhlutfall hér.

Hvað með fóstureyðingar?

Foreldrar, sem hafa sótt um leikskólapláss og eru á biðlista eftir því, eiga að sögn Miðflokksins að fá styrk til að greiða dagmæðrum meðan beðið er, þessu er Verkamannaflokkurinn hins vegar ekki sammála.

Sósíalíski vinstriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn deila enn fremur um fóstureyðingar. Flokkarnir eru sammála um að leggja niður nefnd sem úrskurðar um réttmæti fóstureyðinga allt fram að 18. til 22. viku meðgöngu, Miðflokkurinn vill hins vegar að konur taki sjálfar ákvörðun til og með 12. viku, en vill halda nefndinni, þó þannig að farið sé yfir verklagsreglur og nafn hennar.

Eins vilja nýju stjórnarflokkarnir lækka rafmagnsverð til almennings, banna sölu bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi 2025 og hækka fjármagnstekjuskatt þannig að þeir efnamestu borgi mest. Þetta eru stóru línurnar hjá nýrri norskri ríkisstjórn Støre.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert