Erfiður vetur framundan

Líkur eru á að erlendir ferðamenn verði færri í ár …
Líkur eru á að erlendir ferðamenn verði færri í ár en spáð var. Ljósmynd/Einar Falur

Útlit er fyrir að heimsfaraldurinn muni halda áfram að bíta í ferðaþjónustuna hér á landi og að veturinn framundan verði erfiður. Erlendir ferðamenn verða að öllum líkindum talsvert færri í ár en spáð var.

Í upphafi sumars spáðu greiningardeildir bankanna að um 600-800 þúsund erlendir ferðamenn kæmu hingað til lands í ár. Þá spáði Ferðamálastofa því í lok ágúst að þeir yrðu um 890 þúsund talsins. Það sé þó „orðið alveg ljóst“ að þeir verði nær því að vera 600.000, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Flókið að meta mannaflaþörf

Af þessum sökum sé erfitt að meta mannaflaþörfina í greininni fyrir veturinn en hún muni þó að öllum líkindum fara minnkandi. „Við erum einfaldlega með færri ferðamenn á veturna en á sumrin, rétt eins og önnur nágrannaríki okkar, en við sjáum líka fram á það að ákveðnir hópar muni lítið láta sjá sig í vetur, hópar sem hafa verið okkur mjög mikilvægir,“ segir Jóhannes.

Þá segir hann ákvörðun Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) um að setja Ísland á hæsta hættustig í ágúst hafa haft merkjanleg áhrif á ferðaþjónustuna. „Það hafði ekki afgerandi áhrif á það sem hafði þegar verið bókað þegar þetta gerðist en það hefur alveg haft merkjanleg áhrif á eftirspurnina í kjölfarið, sérstaklega núna í september.“

Líklegt er að fjöldi fyrirtækja, sér í lagi úti á landsbyggðinni, þurfi að leggja niður starfsemi sína í vetur, að sögn Jóhannesar. Því sé mikilvægt að ráðningarstyrkir ríkisins til fyrirtækja í ferðaþjónustunni verði framlengdir fram á næsta sumar.

„Það er alveg ljóst að þetta verður mjög erfiður vetur.“

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert