„Mamma fékk næstum hjartaáfall“

Patrekur Sólrúnarson og Celina Svanberg á glæsilegu heimili sínu í …
Patrekur Sólrúnarson og Celina Svanberg á glæsilegu heimili sínu í Revetal, úthverfi Tønsberg. Patrekur byrjaði með tvær hendur tómar þegar þeir Ghazi vinur hans stofnuðu ræstingafyrirtæki í Noregi 17 ára gamlir og áttu ekki bót fyrir boru. Í dag eru þeir með 300 manns í vinnu og eftirsóttir fyrirlesarar í frumkvöðlafræðum við norska skóla. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Einhverjir teldu það í besta falli draumórakennt, ef ekki hreint brjálæði, að hætta 17 ára gamall í framhaldsskóla utan fósturjarðarinnar og stofna fyrirtæki. Flestir vinir Patreks Sólrúnarsonar voru á þeirri skoðun þegar hann labbaði sig út úr skólanum sínum í Tønsberg í Noregi á dögunum og stofnaði ræstingafyrirtækið Support Service Partner með sínum besta vini, Ghazi Khder Jezdin, flóttamanni frá Norður-Írak.

Nú er öldin hins vegar önnur, þeir félagar eru með 300 manns í vinnu, velta 80 milljónum norskra króna, vel rúmum milljarði íslenskra, á ári og vinirnir, sem á sínum tíma gerðu allt til að fá Patrek ofan af þessari vitleysu, eru núna að sækja um vinnu hjá honum. Patrekur, sem er sonur Sólrúnar Margrétar Stefánsdóttur, vaxtarræktarkonu og naglasérfræðings í Tønsberg, sem ræddi við Morgunblaðið fyrir skemmstu, er næsti viðmælandi.

Patrekur kveður lífið á toppnum einmanalegt og dálitla áskorun að …
Patrekur kveður lífið á toppnum einmanalegt og dálitla áskorun að vera stjórnandi í stórfyrirtæki, erfitt sé að tengjast undirmönnum þar sem þurfi að halda vissri fjarlægð. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég ólst upp á Akureyri með fjölskyldu minni, ég er fæddur 1995, og svo var það þannig að árið 2007 flutti æskuvinur minn hingað til Noregs með fjölskyldu sinni,“ segir Patrekur við upphaf samtals sem á sér stað á þakpalli reisulegs einbýlishúss hans í Revetal, einu úthverfa Tønsberg.

Fór aldrei til baka

„Ég ætlaði bara að koma í heimsókn til hans eitt sumar, en svo fór ég aldrei til baka,“ rifjar hann upp. „Svo hringdi ég í mömmu og sagði henni hvað allt væri fínt hérna og að við yrðum bara að flytja og það gekk eftir.“ Þau mæðginin hófu Noregsferilinn í Kongsberg en fluttu þaðan til Drammen, suður af Ósló, þar sem þriggja ára búseta beið þeirra. Patrekur játar þó að líf í nýju landi hafi ekki verið eintómur dans á rósum.

„Vissulega var það erfitt fyrir mig að flytja til annars lands, til dæmis var erfitt að eignast hérna vini þótt ég hafi verið mjög spenntur fyrir þessu í byrjun. En þegar hversdagslífið tók við fór mesti glansinn af þessu og þetta var mjög erfiður tími þangað til maður komst inn í samfélagið,“ segir Patrekur en straumhvörf urðu í lífi hans eftir flutning til Tønsberg þar sem hann komst í kynni við vin sinn og síðar samstarfsmann Ghazi Jezdin.

Ghazi Khder Jezdin og Patrekur, piltar sem gengu út úr …
Ghazi Khder Jezdin og Patrekur, piltar sem gengu út úr framhaldsskóla í Noregi 17 ára, Íslendingur og Íraki, ákveðnir í að láta ekkert hindra þann draum að reka stórfyrirtæki. Draumurinn rættist. Myndin er tekin á jólahlaðborði fyrirtækisins þar sem samstarfsfólk þeirra kom þeim á óvart með blómvendi og gjöf. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum 17 ára og höfðum þekkst í þrjá mánuði þegar hann stakk upp á að við stofnuðum fyrirtæki. Við vissum náttúrulega ekki neitt, ekki einu sinni hvernig fyrirtæki við ætluðum að stofna, þangað til Ghazi minntist á að pabbi hans hefði einu sinni kennt honum ræstingar sem hann hafði þá unnið við,“ rifjar Patrekur upp af árdögum fyrirtækis þeirra en eins og fyrr segir kom Írakinn sem flóttamaður til Noregs ásamt fjölskyldu sinni.

„Svo ákveðum við að byrja að þrífa fyrirtæki og viljum bara byrja strax en við vorum báðir 17 ára og hérna í Noregi þarftu að vera 18 til að mega stofna hlutafélag svo við sögðum bara við alla kúnnana að við þyrftum að bíða með að senda þeim reikning þar til við yrðum 18 ára,“ segir Patrekur af þessu nánast lygilega uppátæki þeirra vinanna. Hægt og bítandi óx þeim þó fiskur um hrygg þrátt fyrir enga reynslu af atvinnulífinu.

Stálum bíl mömmu

„Fyrsti kúnninn okkar var veitingastaður hérna niðri á bryggju sem við þrifum klukkan sex á hverjum morgni áður en við fórum í skólann, hann hét Himmel og hav, löngu farinn á hausinn núna. Svo fengum við alls konar smáverkefni með því að skrá okkur á netsíðu þar sem fólk og fyrirtæki geta nálgast alls kyns iðnaðarmenn,“ segir Patrekur frá.

Ekki gekk þó að láta menntakerfið þvælast of mikið fyrir ungum frumkvöðlum frá Írak og Íslandi. „Ég man einu sinni þegar við vorum í skólanum, þá barst okkur tilboð um verkefni sem varð að vinna sama dag. Við læddumst út úr tímanum og stálum bílnum hennar mömmu, hvorugur okkar var með bílpróf, fundum svo eitthvert ryðgað moppuskaft og sápu í bílskúrnum heima hjá Ghazi og mættum svo á staðinn. Við fengum næstum ekkert borgað fyrir þetta verkefni en þetta sýnir kannski hvað við vorum viljugir til að ganga langt svo fyrirtækið yrði að veruleika,“ segir þessi ungi íslenski eldhugi og hlær við tilhugsunina.

Hundurinn Bobo var hinn alþýðlegasti í skemmtilegri heimsókn til Revetal, …
Hundurinn Bobo var hinn alþýðlegasti í skemmtilegri heimsókn til Revetal, rétt utan við Tønsberg, á laugardaginn. Patrekur eigandi hans var ekki síðri í fróðlegu spjalli við Morgunblaðið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég get alveg sagt þér það að það leist engum á þetta. Vinir okkar, kennararnir, mamma og bara allir sögðu okkur að þetta væri ekki góð hugmynd, allt of mikil áhætta og við vissum ekkert hvað við værum að fara út í. „Gleymið þessu og farið í skólann,“ fengum við að heyra, meðal annars frá vinum okkar sem í dag eru að sækja um vinnu hjá okkur,“ segir Patrekur og hlær af hjartans lyst.

Mamma í sjokki

„Mamma fékk næstum því hjartaáfall, hún var bara í sjokki eftir að ég sagði henni að ég væri hættur við að verða viðskiptafræðingur og ætlaði að stofna þetta fyrirtæki,“ segir Patrekur, en ekkert hjartaáfall virðist þó á döfinni lengur hjá móður hans sem situr inni í stofu í góðu yfirlæti með ákaflega huggulegri og mjög óléttri kærustu Patreks, Celinu Svanberg frá Larvik, en móðir Patreks þjónustaði blaðamann með því að aka með hann heim til sonar síns í Revetal.

„Okkur var alveg sama hvað annað fólk var að segja, þetta átti bara að gerast,“ segir Patrekur af því sem allir í kringum þá vinina töldu verstu hugmynd í allri sögu vondra hugmynda. „Svo urðum við 18 ára og þá gátum við stofnað hlutafélag. Við vorum bara tveir og gerðum allt sjálfir, unnum allan sólarhringinn, sáum um bókhaldið og markaðssetninguna. Til að byrja með var skrifstofan bara í svefnherberginu mínu, við sinntum þeim verkefnum sem við vorum með og þess á milli vorum við bara að ganga á milli fyrirtækja og spyrja um verkefni. Á kvöldin tóku svo við meiri þrif og á næturnar bjuggum við til svona „flyers“, æ, þú veist svona dreifimiða,“ segir Patrekur afsakandi og man ekki öll íslensku orðin þrátt fyrir að hann tali ótrúlega góða íslensku miðað við langa Noregsbúsetu og norskumælandi viðskiptaumhverfi.

Patrekur og Celina eiga von á stelpu í október, sú …
Patrekur og Celina eiga von á stelpu í október, sú fær nafnið Ilma Patreksdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Dreifimiðar þessir fóru í póstkassa einstaklinga og fyrirtækja, frumkvöðlarnir ungu voru bókstaflega með allar klær úti. „Svo kom það fyrir að við þurftum að sofa í kaffistofunni í [matvöruversluninni] Rimi áður en við þurftum að fara að þrífa veitingastaðinn um morguninn. Okkur fannst þetta alveg æðislegur tími, félagar okkar voru úti að skemmta sér og svo komum við um morguninn og þrifum æluna þeirra,“ segir Patrekur og skellihlær.

Draumar geta ræst

Það sem hafi haldið þeim vinunum við efnið hafi þó ávallt verið draumurinn um að reka stöndugt fyrirtæki. „Við fórnuðum öllu, það sem hélt okkur gangandi var draumurinn okkar og það ætlunarverk að láta þetta ganga, vera með fleiri skrifstofur og fullt af fólki í vinnu, það var alltaf málið,“ segir þessi 26 ára gamli Íslendingur. Draumurinn rættist, og kannski rúmlega það.

„Við þurftum að læra allt sjálfir, hvort sem það var af netinu eða úr bókum. Stundum hringdum við bara í önnur fyrirtæki sem voru að gera það gott og spurðum hvernig við ættum að gera hlutina,“ segir Patrekur, tekur sér stutta málhvíld og lítur yfir tilkomumikið skógivaxið landslagið í Revetal áður en hann heldur áfram. „Það er reyndar ótrúlega merkilegt hvað fólk er tilbúið að hjálpa þér ef þú bara spyrð. Hvað sem þú ert að gera finnst alltaf einhver þarna úti sem er góður í því og er tilbúinn að hjálpa þér þegar þú biður um aðstoð. Þetta bjargaði okkur algjörlega í gegnum þetta allt,“ segir hann af eftirminnilegum fyrstu skrefum Support Service Partner.

Mamma er best. Sólrún Margrét Stefánsdóttir með frumkvöðlinum sínum. Sólrún …
Mamma er best. Sólrún Margrét Stefánsdóttir með frumkvöðlinum sínum. Sólrún er áttfaldur Norðurlandameistari í body fitness og á hundrað kíló í bekkpressu, geri aðrir betur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Að lokum kom að því að þeir félagarnir þurftu að hefja ráðningar, vinnuálagið var orðið allt of mikið fyrir tvo menn. „Við vissum ekkert hvernig við áttum að ráða fólk og svo þurftum við að kaupa vinnuföt og setja lógó fyrirtækisins á þau, við bjuggum fyrsta lógóið okkar til í [myndvinnsluforritinu] Paint og límdum það á skyrtur. Svo fengum við skrifstofu á leigu í kjallara niðri í bæ, fengum hana ótrúlega ódýrt og fengum gefins húsgögn sem við fundum á netinu. Við reyndum bara að eyða ekki peningum í neitt, allt kostar og við þurftum peninga til að vaxa. Við borguðum okkur engin laun fyrsta árið og tókum heldur engin lán. En við vorum auðvitað bara 18 ára, vorum ekki fluttir að heiman og fengum mat heima þannig að þetta hentaði ótrúlega vel. Við lifðum bara á hrökkbrauði heima hjá mömmu,“ rifjar Patrekur upp.

Virðisaukaskattur, hvað er það?

Á öðru ári í rekstrinum hafi þeir Ghazi leyft sér launagreiðslur sem námu á bilinu tvö til þrjú þúsund norskum krónum. „Það var náttúrulega geðveikt mikið þá,“ segir Patrekur. Þeir kröfluðu sig svo gegnum ýmsar hindranir og ljón á veginum. Blaðamaður biður um dæmi. „Já, ég skal nú segja þér eitt,“ segir Patrekur glaðbeittur, „þegar við byrjuðum að senda reikninga vissum við ekki að virðisaukaskatturinn væri eitthvað sem við þurftum að skila til ríkisins. Á öðru ári fyrirtækisins fengum við reikning frá skattinum fyrir virðisaukaskattinum og það var peningur sem við áttum ekki, við vorum búnir að eyða honum í sápu,“ segir Patrekur og glottir við tönn.

Þeir brugðu þá á það ráð að senda viðskiptavinum sínum reikninga fyrir fram, ekki eftir á. „Þá fengum við smá pening til að borga virðisaukaskattinn. Oft höfðum við líka áhyggjur af því að geta ekki borgað laun og ofan á það vorum við 18 ára, við vorum að taka fólk í atvinnuviðtöl á kaffihúsum. Þangað kom fullorðið fólk í atvinnuviðtal hjá einhverjum unglingum með bólur og viðtalinu lauk kannski með því að fólk sagði bara „Sorrí, ég bara treysti ykkur ekki,““ segir Patrekur. „Við höfðum varla verið í atvinnuviðtölum sjálfir og svo vorum við allt í einu að taka viðtöl við fólk sem vildi vinna hjá okkur.“

Patrekur og Ghazi á góðri stundu. „Við fórnuðum öllu, það …
Patrekur og Ghazi á góðri stundu. „Við fórnuðum öllu, það sem hélt okkur gangandi var draumurinn okkar og það ætlunarverk að láta þetta ganga, vera með fleiri skrifstofur og fullt af fólki í vinnu, það var alltaf málið,“ segir Patrekur við Morgunblaðið. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamann fýsir að heyra um næstu skref eftir þessi bólugröfnu atvinnuviðtöl manns sem nú hefur á að skipa 300 starfsmönnum. „Fyrsta árið var veltan hjá okkur 360.000 norskar krónur, árið eftir var hún 1,4 milljónir, svo 3,2, 7, 14, 25, 40, 64 í fyrra og núna í ár erum við með 80 milljónir í veltu,“ segir Patrekur, en sú upphæð nemur 1,2 milljörðum íslenskra króna.

„Þetta hefur alltaf verið upp á við en á hverju ári höfum við auðvitað þurft að glíma við ný vandamál sem tengjast því að við erum að stækka mjög hratt og þá hefur það alltaf hjálpað okkur að tala við fólk sem kann meira en við. Allt annað rekstrarlíkan tekur við þegar veltan tvöfaldast, við þurfum að spyrja okkur til dæmis hvernig fyrirtækið eigi að líta út núna. Það getur ekki litið út eins og í fyrra því þá vorum við miklu minni, á hverju ári stækkum við út úr fyrra rekstrarlíkani og þurfum næstum því að byrja upp á nýtt. Svo hefur það oft gerst að starfsfólk hættir hjá okkur og stofnar hreinlega fyrirtæki sem fara í samkeppni við okkur,“ nefnir Patrekur sem dæmi um hluti sem þeir félagar þurfi einfaldlega að lifa við. Svona er það bara.

Eins og hjónaband

„Við Ghazi sitjum núna hlið við hlið á aðalskrifstofunni okkar hérna í Vear, en við erum líka með skrifstofur í Lier og Sarpsborg. Við gerum allt saman og það gengur bara ótrúlega vel þannig. Við Ghazi pössum svo vel saman, við höfum aldrei rifist, hann er góður í sumu sem ég er ekki góður í og öfugt. Við erum bara eins og tannhjól. Auðvitað kemur fyrir að við þurfum að ræða hvaða leið við ætlum að fara en það endar alltaf í góðri sátt þar sem áfangastaðurinn er alltaf sá sami,“ segir Patrekur af samstarfi þeirra vinanna.

Hann játar þó að ekki sé heiglum hent að reka stórfyrirtæki og hafa fjölda manns í vinnu. „Það er einmanalegt að vera stjórnandi, þú ert ekki með neina við hliðina á þér þannig séð, þú ert bara með undirmenn og þú getur aldrei hleypt þeim of nálægt þér, þú þarft alltaf svigrúm til að taka ákvarðanir og reka fyrirtækið almennilega. Þú færð aldrei sömu tenginguna við samstarfsfólkið þitt. Þetta er í rauninni eins og hjónaband að vissu leyti,“ segir Patrekur og getur ekki varist brosi.

Celina Svanberg, kærasta Patreks, er ekki nema rúmur hálfur annar …
Celina Svanberg, kærasta Patreks, er ekki nema rúmur hálfur annar metri á hæð og varla annað hægt en að sýna hana í samanburði við blaðamann sem er tæpir tveir metrar á hæð. Ljósmynd/Sólrún Margrét Stefánsdóttir

Önnur áskorun tengist tungumálum, auðvitað. „Í þessum bransa eru margir útlendingar, margir sem tala litla norsku og jafnvel lélega ensku. Við þurfum að vera ótrúlega góðir í „communication“, hvað heitir það aftur á íslensku?“ spyr Patrekur og blaðamaður bjargar honum með samskipti. „Fólkið okkur kemur frá 30 löndum og viðhorfin og menningin er ólíkt milli landa, þarna þarf að gæta sín. Við erum líka með samkeppnisaðila sem borga fólki of lág laun, bransinn okkar, ræstingar, er starfssvið sem oft er litið niður á, við þurfum að setja mjög mikla vinnu í að byggja ræstingastarfið upp,“ segir Patrekur.

Enginn kemur til okkar

Einn liður í þessari uppbyggingu er eins konar skóli sem Support Service Partner rekur. „Við bjóðum öllum starfsmönnum okkar upp á námskeið og viljum hafa alvörufagfólk á okkar snærum. Margir átta sig ekki á mikilvægi ræstinga, til dæmis á vinnustöðum, ef þessu starfi er ekki sinnt stoppar allt og ræstingafólk fær oft ekki þá virðingu sem það á skilið og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að breyta þeirri ímynd,“ segir Patrekur.

Þeir félagarnir auglýsa ekki mikið en halda úti söludeild hverrar starfsmenn hringja látlaust í fyrirtæki og bjóða upp á þjónustu. Kúnnarnir koma ekki sjálfir. „Enginn kemur til okkar, við förum til þeirra. Og við erum heldur ekki hræddir við að treysta starfsfólkinu okkar og veita því ábyrgð. Margir stjórnendur óttast að gefa öðrum ábyrgð vegna þess að þeir eru hræddir um að enginn geri hlutina eins vel og þeir. Ef þú hugsar svona getur fyrirtækið þitt ekki vaxið, þú kemst ekkert áfram. Þess vegna erum við mjög uppteknir af því að láta fólkið okkar bera ábyrgð. Auðvitað eru alltaf einhver rotin epli inn á milli en okkur finnst eina rétta leiðin að veita fólki frelsi og traust til að vinna vinnuna sína á réttan hátt. Fólk nýtur okkar trausts þangað til við höfum ekki ástæðu til að treysta því lengur og það hefur alveg gerst,“ segir Patrekur og lítur djúpt í augu blaðamanns. Hér fylgir hugur máli.

„Auðvitað eru alltaf einhver rotin epli inn á milli en …
„Auðvitað eru alltaf einhver rotin epli inn á milli en okkur finnst eina rétta leiðin að veita fólki frelsi og traust til að vinna vinnuna sína á réttan hátt. Fólk nýtur okkar trausts þangað til við höfum ekki ástæðu til að treysta því lengur og það hefur alveg gerst,“ segir Patrekur. Ljósmynd/Aðsend

„Ræstingabransinn er þannig að enginn tekur eftir því þegar við vinnum vinnuna okkar, fólk tekur hins vegar eftir því þegar við vinnum hana ekki. Við fáum alls konar kvartanir, stórar og smáar, okkar styrkur liggur kannski fyrst og fremst í því að við leysum málin fljótt og gerum það þannig að viðskiptavinurinn er ánægður. Öðruvísi rekurðu ekki fyrirtæki.“

Eftirsóttur fyrirlesari

Spurður út í framtíðarstefnu fyrirtækisins segir Patrekur stefnuna vera að tuttugufalda stærð fyrirtækisins áður en þeir Ghazi standa á fertugu. Þeir ætla sér að velta milljarði norskra króna innan 14 ára. „Við höfum gott orðspor, fólk mælir með okkur og það skilar miklu. Auðvitað eru þetta sjaldnast einstaklingar, þetta eru mestallt fyrirtæki sem eru að mæla með okkur við önnur fyrirtæki,“ segir Patrekur sem auk þess er eftirsóttur fyrirlesari í frumkvöðlafræðum við norska framhalds- og háskóla. Förum aðeins yfir það.

„Ég held oft fyrirlestra innan þess sem heitir „ung entreprenørskap“ [ungir frumkvöðlar] sem er nám í framhaldsskólum sem fjallar um að stofna eigin fyrirtæki. Þetta er nám sem væntanlegir stofnendur fyrirtækja velja sér. Ég er mest hérna í Vestfold að tala við þessa nemendur en auk þess er ég dómari í árlegri keppni þar sem nemendur koma fram með hugmyndir sínar og kynna rekstrardrauma sína. Ég verð að nefna það að svona...hvað heitir það...frumkvöðlamenning, er á mikilli uppleið hérna í Noregi, síðustu ár hefur vöxturinn verið mikill á þeim vettvangi, það er orðið miklu útbreiddara að fólk vilji stofna fyrirtæki, sem er mikilvægt, við þurfum að halda samfélaginu gangandi og atvinnulífið er lykillinn að því,“ segir þessi íslenski eldhugi sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, kannski ekkert.

Patrekur hnýtir skóþveng konu sinnar, vitandi hvað þjónustustörf ganga út …
Patrekur hnýtir skóþveng konu sinnar, vitandi hvað þjónustustörf ganga út á. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Nú er miklu púðri varið í rekstur, fyrirtæki og grjótharðan vilja til að standa sig. Á þessu er enginn hörgull. En Patrekur á sér fleiri líf, inni í stofu situr gullfalleg kærasta og ræðir við móður Patreks. Þetta er sem fyrr segir Celina Svanberg frá Larvik. Hvernig stendur á þessu?

„Við kynntumst um páskana í fyrra, hún fann mig á Tinder,“ segir Patrekur og hlær. „Ég bauð henni bara beint á stefnumót og hún er ekki farin heim enn þá. Ég sendi einn starfsmann hjá mér heim til hennar fyrst með páskaegg og inni í því voru skrifuð skilaboð frá mér. Þetta var maður frá Sómalíu og henni kolbrá auðvitað. Næsta dag sendi ég svo annað páskaegg sem í þetta sinn innihélt USB-lykil. Á honum var myndskeið þar sem strákur frá Bangladesh þakkar henni fyrir stefnumótið fyrir mína hönd,“ segir Patrekur og sýnir rómantísku hliðina.

Rándýr útsýn yfir Revetal, úthverfi hins fagra miðaldabæjar Tønsberg í …
Rándýr útsýn yfir Revetal, úthverfi hins fagra miðaldabæjar Tønsberg í Vestfold í Noregi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við seldum svo íbúðirnar okkar og keyptum okkur þetta hús saman og sex mánuðum seinna varð hún ólétt. Við eignumst stelpu í október og hún á að heita Ilma, Ilma Patreksdóttir,“ segir Patrekur Sólrúnarson við lok stórskemmtilegs samtals, maður sem hætti 17 ára gamall í framhaldsskóla til að láta draumana rætast og dæmi nú hver sem vill um hvort þeir gerðu það ekki í Tønsberg í Noregi.

Celina og Patrekur eru liðtækt tónlistarfólk, leika á gítar og …
Celina og Patrekur eru liðtækt tónlistarfólk, leika á gítar og syngja við raust. Þessi mynd er tekin í hljóðveri hússins og skortir ekki strengjahljóðfærin í afdrepi þeirra. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert