Margeir fámáll um ósannaðar kenningar lögreglu

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, getur ekki sagt af hverju þess er ekki getið í skýrslu um rannsóknarhætti lögreglu í Rauðagerðismálinu að ákærði Angjelin Sterkaj hafi sjálfur gefið fyrirmæli, sem annar sakborningur í málinu er ákærður fyrir að hafa veitt. 

Umrædd fyrirmæli, sem Murat Selivrada er ákærður fyrir að hafa gefið, voru að segja ákærðu Claudiu Sofiu að segja til um hvort bíll Armando Beqirai, sem áðurnefndur Angjelin myrti 13. febrúar sl., væri á hreyfingu. 

Spurði mjög út í skýrsluna

Verjandi Murats, Geir Gestsson, spurði Margeir, sem gaf skýrslu í aðalmeðferð Rauðagerðismálsins í héraðsdómi í dag, að því hvers vegna þess væri ekki getið í skýrslu um rannsóknarhætti lögreglu, að Angjelin hafi sjálfur sagt við skýrslutöku að hann hafi gefið Claudiu fyrirmæli, sem Murat er ákærður fyrir að hafa gefið. 

Margeir sagðist ekki geta svarað því. 

Murat Selivrada.
Murat Selivrada. mbl.is/Kristinn Magnússon

Geir segir að bæði ákærði Angjelin og ákærða Claudia hafi sagt í sitt hvorri skýrslutökunni, á meðan þau sættu gæsluvarðhaldi, að Angjelin hafi gefið Claudiu fyrirmæli um að láta vita ef bíll Armando væri á hreyfingu kvöldið örlagaríka. 

Þess vegna segist hann ekki skilja að það komi ekki fram í skýrslu um rannsóknarhætti lögreglu, sem lögregla gerir sjálf. Skýrsluna hafa verjendur enda gagnrýnt mjög við aðalmeðferð málsins, þar sem koma fram alls konar ósannaðar kenningar lögreglu um málsatburði óháð framburði sakborninga. 

Dómari lýsti furðu sinni á framlagningu skýrslunnar

Guðjón Marteinsson dómari sagði enda, þegar skýrsluna bar fyrst á góma á mánudag, að skrýtið væri verið að leggja hana fram sem gagn í málinu. Eins og Geir benti blaðamanni mbl.is á síðasta mánudag verður sakfelling í máli sem þessu ekki byggð á öðru en frumgögnum málsins.

Sagði hann varhugavert að ósannaðar kenningar lögreglu kæmu fram í málinu, þar sem það gæti skolast til í málsgögnum með þeim afleiðingum að dómari taki afstöðu sína í málinu á þessum ósönnuðu kenningum. 

Guðjón Marteinsson dómari rakti það á mánudag að sums staðar í skýrslu um rannsóknarhætti lögreglu segi „kenning lögreglu, óháð framburði sakborninga..“ og lýsti hann furðu sinni á því. 

Skýrslutökuhluta aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu lýkur í dag en málflutningur verjenda og saksóknara fer fram á fimmtudag í næstu viku. Fjórum vikum eftir að málflutningi lýkur verður kveðinn upp dómur í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert