Innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum 2. september sl. að ganga að tilboði Þarfaþings ehf. um uppbyggingu og fullnaðarfrágang nýs leikskóla að Kleppsvegi 150-152. Hins vegar var hafnað öllum tilboðum sem bárust í uppbyggingu og fullnaðarfrágang leikskóla í Safamýri 5, áður Safamýrarskóla.
Alls bárust átta tilboð í uppbyggingu leikskólans við Kleppsveg og voru öll yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á rúmar 837 milljónir. Meðal bjóðenda voru nokkur öflugustu fyrirtækin á verktakamarkaði svo sem Ístak hf. og Íslenskir aðalverktakar hf. Þarfaþing átti lægsta tilboðið, krónur 927.073.459, sem var 110% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboðið átti Kappar ehf., tæpar 1.374 milljónir. Starfsmenn Þarfaþings eru byrjaðir að vinna á staðnum.
Fjögur tilboð bárust í uppbyggingu leikskóla í Safamýri. Kostnaðaráætlun var rúmar 487 milljónir og var eitt tilboð undir þeirri tölu, frá Gímó ehf., 375 milljónir. Önnur tilboð, frá Alefli ehf., Flotgólfi ehf. og Spöngu ehf., voru yfir áætlun.
Reykjavíkurborg keypti fasteignirnar á Kleppsvegi 150 og Kleppsvegi 152 á samtals rúmlega 642 milljónir króna. Hvort hús um sig er um eitt þúsund fermetrar. Breyta átti húsnæðinu í leikskóla fyrir 120-130 börn. Þarna var var áður að finna margvíslega starfsemi, svo sem artkitektastofuna Arkís og kynlífstækjabúðina Adam og Evu. Í frumkostnaðaráætlun borgaryfirvalda var gert ráð fyrir að það myndi kosta 623 milljónir að breyta húsnæðinu í leikskóla. Nú er ljóst að framkvæmdin fer langt fram úr áætlun. Heildarkostnaður við kaup og endurgerð verður um 1.570 milljónir. Fulltrúar minnihlutaflokkanna í borgarstjórn gagnrýndu áform meirihlutans harðlega og töldu vænlegra að jafna húsin við jörðu og byggja nýtt hús fyrir væntanlegan leikskóla.