„Ýmislegt mátt mun betur fara“

Líf Magneu­dótt­ur, stjórn­ar­for­maður Sorpu.
Líf Magneu­dótt­ur, stjórn­ar­for­maður Sorpu. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Þetta kom okkur í opna skjöldu og við urðum fyrir smá áfalli vegna þess að það einhvern veginn á ekki af okkur að ganga varðandi viðfangsefnin á borði stjórnar,“ segir Líf Magneu­dótt­ur, stjórn­ar­for­maður Sorpu, í samtali við mbl.is.

Í gær var greint frá því að myglu­gró hafi greinst í ág­úst í lím­tré­sein­ing­um í þaki og burðar­virki GAJU,  gas- og jarðgerðar­stöð Sorpu.

„Á fundi stjórnarinnar 10. september var farið mjög ítarlega yfir stöðuna. Þá fólum við framkvæmdastjóra að ráðast í úttekt óháðra sérfræðinga á umfangi vandans, leggja fram tillögur til úrbóta, skoða hvort um sé að ræða hönnunargalla eða að forsendur hönnunar hafi ekki staðist. Við sem sitjum í stjórn Sorpu erum ekki verkfræðingar svo við treystum á  sérfræðinga til þess að hafa þekkinguna á að byggja svona verk.“

GAJA, gas- og jarðgerðar­stöð Sorpu.
GAJA, gas- og jarðgerðar­stöð Sorpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir að stjórnin bíði nú niðurstöðu úttektarinnar sem sé algjört forgangsverkefni. „Ég vona bara að við fáum eitthvað á borðið sem fyrst og við bíðum bara eftir að öll kurl verði komin til grafar svo að við getum ákveðið næstu skref,“ segir Líf.

Byrjunarörðugleikar

Hún segir mikilvægt að temja sér ákveðið æðruleysi, „öllum nýjungum og brautryðjendastarfi fylgir alltaf smá hasar. Þetta eru byrjunarörðugleikar og það hefur reynst okkur þrautinni þyngri að koma þessu hringrásarhagkerfi í gagnið á höfuðborgarsvæðinu en við látum ekki bugast.“ 

Full­vinnsla stöðvar­inn­ar á lífefnum hefur verið stöðvuð tímabundið á meðan umfang myglunar er metið en enn er unnið með metan. „GAJA gegnir því hlutverki að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda og hún starfar enn sem slík.“

Ákveðið klúður

Í viðtali við RÚV í dag sagði Eyþór Arnalds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í borg­ar­stjórn, að mál GAJU hafi verið klúður frá upphafi til enda.

„Jú jú, við getum alveg tekið undir það. Það hefur ýmislegt mátt mun betur fara,“ segir Líf og nefnir þó að þegar stjórnin tók við árið 2018 var farið fram á framvinduskýrslu sem engin önnur stjórn hefur gert.

„Það var ýmislegt sem var aðfinnsluvert sem að endaði náttúrlega með því að framkvæmdastjórinn hafði ekki okkar trúnað og því sögum við honum upp. Frá því hefur verið gagngerð tiltekt í félaginu og það hefur gengið í endurnýjun lífdaga,“ segir Líf og bætir við að ný framkvæmdastjórn hafi reynst mjög vel.

„Þetta myglumál er auðvitað vonbrigði en þetta er bara viðfangsefni sem við ráðumst í og erum ósérhlífin. Það þýðir ekkert að væla yfir því.“

Burðarvirkið úr timbri

Líf segir að verið sé að kanna hönn­un og efn­is­val húss­ins. „Það er umhugsunarefni hvar sú ákvörðun var tekin hjá hönnuðunum að burðarvirkið skuli vera úr timbri til dæmis. Ég ætla hins vegar ekki að leita að einhverjum sökudólgum á þessu stigi málsins,“ segir Líf og bætir við að óháða úttektin muni vonandi skýra margt og að ákvarðanir verði teknar í kjölfarið. 

Hún segir að sér þykir vænt um stöðina og vilji sjá hana þjóna sínum tilgangi. Þá segist Líf vera orðin óþreyjufull þar sem að hlutir hafi gengið hægt.

„Núna eru þeir loksins að bresta á. Við erum á næstu mánuðum og árum að horfa fram á gerbreytta úrgangsstjórnun á höfuðborgarsvæðinu, þannig að við finnum verulega fyrir því. Það eru ótrúlega margir boltar á lofti í úrgangsmálum á Íslandi í dag sem er löngu orðið tímabært.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert