Sjúkratryggingar Íslands hafa gert 20 milljóna samning við Rauða krossinn á Íslandi um skaðaminnkandi þjónustu fyrir einstaklinga í vímuefnavanda árið 2021. Fjármagnið rennur til skaðaminnkunarverkefnisins Frú Ragnheiðar sem starfar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri.
„Frú Ragnheiður hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu og bjóða þeim upp á skaðaminnkandi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Heilbrigðisþjónusta Frú Ragnheiðar veitir meðal annars nálaskiptiþjónustu, aðhlynningu sára, sýklalyfjameðferð, umbúðaskipti, saumatöku og almenna heilsufarsskoðun og ráðgjöf.