Alvarlegar athugasemdir við húsakost á Litla-Hrauni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Páll Winkel fangelsismálastjóri fóru yfir …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Páll Winkel fangelsismálastjóri fóru yfir stöðu mála á blaðamannafundi nú í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stórfelldar endurbætur eru nú hafnar á fangelsinu á Litla-Hrauni enda hefur lengi legið fyrir að húsnæðið þar sé ófullnægjandi á alla mælikvarða. Stefnt er að því að endurbótum ljúki árið 2023 og munu þær kosta um 1,9 milljarða króna. Turninn á byggingunni, sem hefur verið kennileiti hússins, mun heyra sögunni til.

Þetta kynntu Páll Winkel fangelsismálastjóri og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi í Hegningarhúsinu í morgun. 

Miklar og alvarlegar athugasemdir

Meðal þess sem kom fram á fundinum var að alþjóðleg nefnd gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð á föngum gerði alvarlegar athugasemdir við húsnæðið á Litla-Hrauni. Þá er nánast ómögulegt að koma í veg fyrir að fíkniefni berist inn í fangelsið og enn erfiðara er að stöðva dreifingu þeirra innan þess. 

Þá er aðstaða heilbrigðisstarfsfólks með öllu ófullnægjandi og kemur það í veg fyrir að annars gott samráð fangelsis- og heilbrigðisyfirvalda beri ávöxt, þar sem ekki er hægt að fara fram á að heilbrigðisstarfsfólk vinni við þær aðstæður sem eru á Litla-Hrauni. 

Loks hefur Vinnueftirlitið gert athugasemdir við vinnuaðstöðu fanga og fangavarða. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýbyggingar í bland við endurbætur

Vegna alls þessa verður ráðist í byggingu nýs þjónustuhúss, nýrrar varðstofu og nýs fjölnotahúss auk þess sem ráðist verður í lagfæringar á núverandi húsnæði.

Svokölluð samstarfsleið verður farin við endurbætur fangelsisins, sem lýsir sér þannig að verkframkvæmdin öll verður sniðin að því fyrirtæki sem tekur að sér verkið fyrir ríkið að loknu útboði. 

Framkvæmdin er enda gríðarlega flókin, eins og kom fram á fundinum, og verður að eiga sér stað á meðan húsið sjálft er í notkun. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert