Stórt grjót hrundi á Siglufjarðarveg í morgun og lokaði um leið fyrir ferðir bíla um veginn.
Stefanía Hjördís Leifsdóttir var á leið til Siglufjarðar með drengina sína í skimun fyrir kórónuveirunni, þegar hún ók fram á grjótið.
„Grjótskriðan var nýfallin þegar við komum að, rétt fyrir klukkan tíu,“ segir Stefanía í samtali við mbl.is.
„Þetta er algerlega óboðlegt ástand. Vegurinn er stórhættulegur vegna grjóthruns á mörgum köflum og jarðsigs. Haustrigningarnar eru ekki byrjaðar enn svo maður getur ímyndað sér hvernig ástandið mun verða þá,“ bætir hún við.
Tekur hún fram að fleiri foreldrar úr Fljótunum hafi verið á leið til Siglufjarðar í sömu erindagjörðum. Töluverð umferð hafi verið í báðar áttir. Fljótlega hafi þó komið stórvirk vinnuvél frá Siglufirði og ýtt grjótinu í burtu.
Íbúar hafa áður fundið ítrekað að því hvernig staðið sé að samgöngum og innviðum þeirra á svæðinu.
„Jarðsigið sér svo til þess að vegurinn er á hraðri leið út í sjó,“ segir Stefanía og bendir á að risastórt skarð sé í vegstæðinu rétt við gangamunnann Fljótamegin.
„Svo er vegurinn ófær vikum saman yfir vetrartímann vegna snjóa og snjóflóðahættu.“