Ók fram á nýfallna grjótskriðu

Svona var aðkoman á Siglufjarðarvegi í morgun.
Svona var aðkoman á Siglufjarðarvegi í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Stórt grjót hrundi á Siglufjarðarveg í morgun og lokaði um leið fyrir ferðir bíla um veginn.

Stefanía Hjördís Leifsdóttir var á leið til Siglufjarðar með drengina sína í skimun fyrir kórónuveirunni, þegar hún ók fram á grjótið.

„Grjótskriðan var nýfallin þegar við komum að, rétt fyrir klukkan tíu,“ segir Stefanía í samtali við mbl.is.

Þetta er algerlega óboðlegt ástand. Vegurinn er stórhættulegur vegna grjóthruns á mörgum köflum og jarðsigs. Haustrigningarnar eru ekki byrjaðar enn svo maður getur ímyndað sér hvernig ástandið mun verða þá,“ bætir hún við.

Grjótið hrundi niður hlíðina eins og sést glöggt á myndinni.
Grjótið hrundi niður hlíðina eins og sést glöggt á myndinni. Ljósmynd/Aðsend

Risastórt skarð í vegstæðið

Tekur hún fram að fleiri foreldrar úr Fljótunum hafi verið á leið til Siglufjarðar í sömu erindagjörðum. Töluverð umferð hafi verið í báðar áttir. Fljótlega hafi þó komið stórvirk vinnuvél frá Siglufirði og ýtt grjótinu í burtu.

Íbúar hafa áður fundið ítrekað að því hvernig staðið sé að samgöngum og innviðum þeirra á svæðinu.

„Jarðsigið sér svo til þess að vegurinn er á hraðri leið út í sjó,“ segir Stefanía og bendir á að risastórt skarð sé í vegstæðinu rétt við gangamunnann Fljótamegin.

„Svo er vegurinn ófær vikum saman yfir vetrartímann vegna snjóa og snjóflóðahættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert