Mjólkursamsalan ehf. gerir alvarlegar athugasemdir við kostað kynningarblað, sem fylgdi með Fréttablaðinu í gær, en það bar heitið „Fögnum frelsinu – samkeppni lifi“. Í fréttatilkynningu sem MS sendi frá sér í gær segir að þar hafi komið fram fjölmargar rangfærslur um Mjólkursamsöluna og starfsemi hennar, og að þeim rangfærslum verði svarað síðar á réttum vettvangi.
Í kynningarblaðinu var meðal annars rætt við Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, og gagnrýnir Mjólkursamsalan þátttöku hans í blaðinu. „Blað þetta er gefið út á meðan dómsmál Mjólku á hendur Mjólkursamsölunni er til meðferðar fyrir dómstólum. Furðu sætir að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli gefa færi á viðtali við sig í slíku kynningarblaði sem er fjármagnað af einkaaðila þar sem farið er fram með rangfærslur gagnvart samkeppnisaðila sem Samkeppniseftirlitið á að hafa eftirlit með,“ segir í tilkynningu Mjólkursamsölunnar.
„Gera verður alvarlegar athugasemdir við þessa umfjöllun og vekur hún upp áleitnar spurningar um hæfi Samkeppniseftirlitsins til að fjalla um málefni Mjólkursamsölunnar,“ segir að lokum í tilkynningunni.