Vilborg Dagbjartsdóttir, skáldkona og kennari, lést á líknardeild Landspítalans, hinn 16. september síðastliðinn, 91 árs að aldri.
Vilborg fæddist á Vestdalseyri við Seyðisfjörð 18.7. 1930. Foreldrar hennar voru Dagbjartur Guðmundsson, f. 19.10. 1886, d. 6.4. 1972, bóndi og sjómaður á Seyðisfirði, og k.h., Erlendína Jónsdóttir, f. 3.5. 1894, d. 14.7. 1974, húsfreyja. Vilborg lauk kennaraprófi frá KÍ 1952, stundaði leiklistarnám 1951-53, nám í bókasafnsfræði við HÍ 1983 og dvaldi í Skotlandi og Danmörku 1953-55. Vilborg var kennari við Landakotsskóla 1952-53 og var kennari við Austurbæjarskóla 1955-2000 er hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Vilborg sendi frá sér fjölda ljóða- og barnabóka en þýddi auk þess hátt á fimmta tug barna- og unglingabóka og ritstýrði bókum. Tvær ævisögur Vilborgar hafa komið út: Mynd af konu, eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, útg. 2000, og Úr þagnarhyl, eftir Þorleif Hauksson, útg. 2011.
Vilborg var formaður Rithöfundafélags Íslands, sat í stjórn Stéttarfélags íslenskra barnakennara, Rithöfundasambands Íslands og Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, tók þátt í undirbúningi fyrstu Keflavíkurgöngunnar 1960, starfaði með Hernámsandstæðingum, var síðar einn af stofnendum Herstöðvaandstæðinga, var meðal brautryðjenda Nýju kvenfrelsishreyfingarinnar, átti þátt í stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar 1970 og ein af þremur konum í fyrstu miðju Rauðsokka. Hún var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands frá 1998, heiðurslaunahafi Alþingis til listamanna og var sæmd riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar fyrir fræðslu- og ritstörf 17.6. árið 2000.
Maður Vilborgar var Þorgeir Þorgeirson, f. 30.4. 1933, d. 30.10. 2003, kvikmyndagerðarmaður og rithöfundur. Sonur þeirra er Þorgeir Elís, f. 1.5. 1962, eðlisefnafræðingur sem vinnur hjá Íslenskri erfðagreiningu. Sonur Vilborgar og Ásgeirs Hjörleifssonar, f. 13.1. 1937, framkvæmdastjóra er Egill Arnaldur, f. 18.6. 1957, kennari við Austurbæjarskóla. Barnabörnin eru alls fjögur.