Það er mikill ávinningur fólginn í því að koma upp heilandi görðum við heilbrigðisstofnanir á Íslandi. Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir vöruhönnuður hefur rannsakað heilandi garða sem eru sérstaklega hönnuð græn svæði við spítala, heilsustofnanir og endurhæfingardeildir sem stuðla að aukinni endurheimt sjúklinga og starfsfólks auk skjótari bata. Framkvæmdir standa nú yfir við nýjan heilandi meðferðargarð við endurhæfingardeild Landspítala við Grensás.
„Við erum að gera breytingar á hluta á garðinum sem er á milli sundlaugar og aðalbyggingar hjá okkur og snýr í austur. Það er verið að breyta þeim garði algjörlega. Það var gert í mjög góðu samstarfi við Hollvini Grensáss sem fjármagna það og í samstarfi við starfsmenn hér á Grensás. Starfsmennirnir voru búnir að hitta Guðfinnu nokkrum sinnum og við heilluðumst af því sem hún er að gera. Það hafði áhrif á okkar hugsun,” segir Sigríður Guðmundsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar.
„Hún segir að það hafi því verið hugað að því að garðurinn yrði hannaður þannig að hægt yrði að nota hann í heilunar- og meðferðarskyni. „Það er svo mikilvægt. Ef þú lamast og ert að læra að ganga upp á nýtt, þá þarftu að æfa á misjöfnu undirlagi. Bara svo þú klárir þig úti í lífinu. Við höfum ekki haft neitt nema malbik hérna fyrir framan þannig að þetta verður mjög gott og mikil viðbót við færniþjálfun hjá okkur,” segir hún en garðurinn verður tilbúinn í haust.
„Að komast út í hádeginu að sumri til, það léttir lundina, það er alveg á hreinu,” segir Sigríður aðspurð hvort garðurinn muni líka gagnast starfsfólki. „Það verður líka mjög gott fyrir ættingja og sjúklingana sjálfa að hafa eitthvað afdrep. Eins og staðan er núna er eiginlega enginn staður fyrir utan nema bílastæðið. Þar er mjög gott skjól en það er ekki huggulegt. Þarna verður breyting á núna í haust þegar búið verður að gera þennan hluta af lóðinni,” segir hún og útskýrir að þá verði til góður dvalarstaður og þarna verði bekkir þannig að bæði sjúklingar og ættingjar geti verið úti. „Það er svo mikilvægt að komast út undir bert loft þegar þú ert kominn í endurhæfingu. Það er svo einkennilegt með súrefnið í andrúmsloftinu, það er heilandi, bara það að komast út.”
Nú stendur yfir útboð á forhönnun við nýbyggingu við Grensásdeildina. „Þetta er orðið staðreynd og við erum afskaplega glöð með það. Það er ekkert farið að skipuleggja lóðina í raun og veru í kringum nýbygginguna. Þessar framkvæmdir sem standa núna yfir eru fjármagnaðar annars vegar af Hollvinum Grensáss og hins vegar Landspítalanum,” segir Sigríður sem vonar að það verði hægt að hugsa lóðina við viðbygginguna á sama hátt þannig að hún nýtist einnig sem meðferðargarður.
Hún hlakkar til þess að nota nýja garðinn við meðferðir. „Við verðum með lítið gróðurhús. Þar verður iðjuþjálfun. Þarna verður sennilega ræktað eitthvað grænmeti og aðrar plöntur og sjúklingarnir hugsa um plönturnar. Þetta er hluti af því að komast út í lífið og takast á við daglegt líf. Það er mjög mikilvægt. Það er verið að hanna eins og blómabeð og þvíumlíkt svo það sé í hæð þannig að fólk í hjólastól geti sinnt þessum beðum. Það er bara frábært og við hlökkum mikið til að sjá þetta verða að veruleika,” segir Sigríður að lokum.
Guðfinna kynntist áhrifamætti heilandi garða í námi í umhverfisskipulagi í Landbúnaðarháskóla Íslands. ,,Þar kynnist ég þessari hugmynd um heilandi garða og fer að lesa mér til. Finn strax að þetta er eitthvað sem mér finnst mjög áhugavert. Ástæðan fyrir því að ég tengi enn meira við þetta og þetta verður að þessari ástríðu er það að ég var í þeim aðstæðum að vera aðstandandi uppi á Landspítala. Pabbi átti í mjög erfiðum veikindum sem stóðu í fjögur ár. Ég dvaldi mjög mikið á Landspítalanum,” segir Guðfinna en hún hefur rannsakað áhrifamátt heilandi garða við sjúkrastofnanir.
Garðarnir geta haft mikil áhrif fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur, auk sjúklinga. „Sem aðstandandi færðu ekkert svigrúm í þínu daglega amstri til að takast á við þetta risastóra verkefni ofan á annað hversdagslegt álag. Þegar maður er undir miklu álagi til lengri tíma finnur maður vel hvað þetta fer að hafa áhrifa á eigin heilsu líka,” segir hún.
Faðir Guðfinnu, Magnús Þorgrímsson, var sálfræðingur að mennt en hann lést árið 2019. Magnús og Guðfinna ræddu mikið saman um áhrif umhverfisins á líðan á meðan á veikindum Magnúsar stóð. „Við ræddum þetta mjög mikið og fannst aðkallandi þessi þörf fyrir að geta stigið út úr aðstæðunum og komast í umhverfi sem gefur manni einhverja endurnýjun. Það er mikilvægt að geta hlaðið batteríin með einhverjum hætti. Það er það sem þessir garðar snúast um,” segir hún og bendir að margar vísindarannsóknir hafi sýnt fram á að ef þessir heilunargarðar séu hannaðir út frá ákveðnum forsendum geti þeir haft áhrif.
Hún segir að til mikils sé að vinna ekki bara fyrir sjúklinga heldur líka heilbrigðisstarfsfólk sem sé undir miklu álagi. Aukin endurheimt í gegnum heilandi garða með grænu umhverfi geti haft jákvæð áhrif. „Allir vilja að heilbrigðisstarfsfólk geri sem fæst mistök. Garður er ekki töfralausn en það er búið að sýna fram á að þetta virkar. Það er byggt á staðreyndum og rannsóknum að þetta getur haft mikil áhrif og það eru því miklir almannahagsmunir í húfi. Þetta getur haft svo mikið að segja til að úthaldið verði betra, að fólk fái þessa mikilvægu hvíld sem gerir því kleift að halda áfram í næsta verkefni,” segir hún og bætir við að það geti líka haft djúpstæð áhrif að horfa út á umhverfi sem þetta.
„Endurheimt er lífsnauðsynleg fyrir fólk,” segir hún og það er einmitt það sem heilandi garðar geta gert.
Guðfinna segir að hægt sé í grófum dráttum að skipta hugmyndinni um heilandi garða í tvo flokka. Annars vegar fyrir sálræna endurheimt og hins vegar fyrir líkamlega endurhæfingu þar sem sálræn endurheimt á sér stað samhliða.
Uppbygging heilandi garðs kostar sitt og þarf að huga að ýmsu við gerð hans en Guðfinna hefur trú á því að þetta fé skili sér til baka og meira en það. „Að sjálfsögðu fylgir þessu kostnaður. Það er ekki nóg að vera með fjárveitingu fyrir uppbyggingu meðferðargarðs heldur þurfi að tryggja rekstrarfé fyrir garðinn,” segir Guðfinna og bætir við að rétt eins og það þurfi rekstrartækna innanhúss þurfi garðyrkjufólk til að sinna garðinum. „Ég er sannfærð um að þetta væri alltaf sparnaður til lengri tíma fyrir ríkissjóð,” segir hún þar sem ávinningur sé mikill fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur.
„Ég upplifði sjálf heilsubrest eftir mikið álag til lengri tíma. Maður veit að margt heilbrigðisstarfsfólk kiknar undan álagi og veikist. Það er gríðarlegur kostnaður við það,” segir hún.
Hún vann með endurhæfingardeild Landspítala á Grensás fyrir tveimur árum að því að skoða möguleikann á því að byggja upp heilandi garð á lóð deildarinnar. „Lóðin hafði ekki fengið neina athygli árum saman. Garðurinn í kringum Grensás var vægast sagt niðurdrepandi. „Þarna er fólk að dveljast langtímum saman, jafnvel marga mánuði,” segir hún.
„Mér fannst aðkallandi að hafa samband við þau. Yfirmenn tóku vel í þetta og við áttum samtal sem leiðir svo til þess að þetta verkefni er farið af stað.”
Lengi vel var það aðeins sterkt innsæi fólks að grænt umhverfi, gróður og garðar hefðu góð áhrif á heilsu. „Þess vegna er það svo ánægjulegt að í dag er það ekki bara innsæið sem segir okkur þetta heldur styðja vísindin við þetta,” segir Guðfinna sem vill láta heilandi garð við nýjan Landspítala við Hringbraut verða að veruleika og hyggst beita sér fyrir því.
Í veröld þar sem sífellt fleiri þjást af örmögnun og eru í hættu á því að brenna út geta heilandi meðferðargarðar verið mikilvæg viðbót við heilbrigðiskerfið.
Áhrifamáttur gróðurs og náttúrulegs umhverfis til að endurnýja orku, andlega virkni og einbeitingu getur verið umtalsverður. Dregið getur úr kortisól framleiðslu og þannig minnkað streitu. Að fá tækifæri til að komast í burtu og upplifa hrifningu eru mikilvægir þættir í þessari hugmyndafræði og forsendur þess að andleg endurheimt geti átt sér stað.
Ítarleg umfjöllun er um áhrifamátt heilandi garða í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.