Unnið var allan daginn í gær að því að smala saman nægum mannskap svo hægt væri að sækja fé á Unadalsafrétt, sem er upp af Höfðaströnd í Skagafirði. Þar um slóðir mallar kórónuveiran nú af fullum þunga sem ýmist hefur lagt fólk í rúmið eða sett í sóttkví. Á bænum Þrastarstöðum eru fimm í heimili og mega sig hvergi hreyfa, vegna veikinda eins í hópnum. Fólkið fer því ekki í smalamennsku, en sú skylda hvílir á ábúendum að leggja til 14 manns í verkefnið, eða helminginn í þann hóp sem þarf. Allt miðar þetta við að fé verði dregið í dilka í Árhólarétt við Hofsós á morgun, sunnudag, degi síðar en ætlað var.
„Þetta er vandamál og leiðinlegt að þessi staða sé komin upp,“ segir Rúnar Þór Númason, bóndi á Þrastarstöðum, í samtali við Morgunblaðið. Sjálfur er hann með um 1.000 fjár á afréttinum, sem smalaður er á tveimur dögum. Vinnan hvorn dag eru fjórtán klukkustundir og þarf þá að fara fótgangandi upp um fjöll og dali, sem kallar á að fólk sé í þokkalegri þjálfun. Margir frá Hofsósi og af Höfðaströnd hafa, sumir sér fyrst og síðast til gamans, tekið þátt í smalamennskunni, en eftir að nokkur Covid-smit greindust í grunnskólanum á Hofsósi fyrir um viku er fólk á fjölmörgum heimilum á svæðinu í sóttkví. Greinist fleiri getur slíkt sett verulegt strik í reikninginn varðandi göngur og réttir, ekki bara á Höfðaströnd, heldur víðar á Tröllaskaga.
„Nú fara að verða síðustu forvöð og göngur hér mega ekki dragast öllu lengur,“ segir Rúnar Þór. „Þegar langt er liðið á september fer að verða allra veðra von á Norðurlandi. Komi óvænt hríðarskot gæti fé fennt í kaf og drepist. Því ríður á að okkur takist að ná fé af afrétt um helgina, en til þess þarf fólk sem er við góða heilsu.“
Fyrirkomulag réttanna hefur enn ekki verið ákveðið og beðið er þess hvaða línur Almannavarnir leggja. Skv. nýjustu reglum miðast fjöldatakmarkanir á helstu mannamótum nú við 500 manns. Þá ber að taka fram að áður en samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar voru settar fyrir hálfu öðru ári var algengt að í Laufskálarétt mættu á hausti hverju 3.000-4.000 manns, að sögn Atla Más Traustasonar, réttarstjóra og bónda í Syðri-Hofdölum.
Færri gripir verða í Laufskálarétt nú en stundum áður; um 270 fullorðin hross og 400 folöld.