Smöluðu mannskap í göngur

mbl.is/Sigurður Bogi

Unnið var allan daginn í gær að því að smala saman nægum mannskap svo hægt væri að sækja fé á Unadalsafrétt, sem er upp af Höfðaströnd í Skagafirði. Þar um slóðir mallar kórónuveiran nú af fullum þunga sem ýmist hefur lagt fólk í rúmið eða sett í sóttkví. Á bænum Þrastarstöðum eru fimm í heimili og mega sig hvergi hreyfa, vegna veikinda eins í hópnum. Fólkið fer því ekki í smalamennsku, en sú skylda hvílir á ábúendum að leggja til 14 manns í verkefnið, eða helminginn í þann hóp sem þarf. Allt miðar þetta við að fé verði dregið í dilka í Árhólarétt við Hofsós á morgun, sunnudag, degi síðar en ætlað var.

Síðustu forvöð

„Þetta er vandamál og leiðinlegt að þessi staða sé komin upp,“ segir Rúnar Þór Númason, bóndi á Þrastarstöðum, í samtali við Morgunblaðið. Sjálfur er hann með um 1.000 fjár á afréttinum, sem smalaður er á tveimur dögum. Vinnan hvorn dag eru fjórtán klukkustundir og þarf þá að fara fótgangandi upp um fjöll og dali, sem kallar á að fólk sé í þokkalegri þjálfun. Margir frá Hofsósi og af Höfðaströnd hafa, sumir sér fyrst og síðast til gamans, tekið þátt í smalamennskunni, en eftir að nokkur Covid-smit greindust í grunnskólanum á Hofsósi fyrir um viku er fólk á fjölmörgum heimilum á svæðinu í sóttkví. Greinist fleiri getur slíkt sett verulegt strik í reikninginn varðandi göngur og réttir, ekki bara á Höfðaströnd, heldur víðar á Tröllaskaga.

„Nú fara að verða síðustu forvöð og göngur hér mega ekki dragast öllu lengur,“ segir Rúnar Þór. „Þegar langt er liðið á september fer að verða allra veðra von á Norðurlandi. Komi óvænt hríðarskot gæti fé fennt í kaf og drepist. Því ríður á að okkur takist að ná fé af afrétt um helgina, en til þess þarf fólk sem er við góða heilsu.“

Almannavarnir leggi línurnar

Laufskálaréttir í Hjaltadal í Skagafirði verða á laugardag um næstu helgi, 25. september. Þá verður hrossastóð rekið úr dölum í réttirnar, sem eru skammt frá Hólum, þeim fræga stað.

Fyrirkomulag réttanna hefur enn ekki verið ákveðið og beðið er þess hvaða línur Almannavarnir leggja. Skv. nýjustu reglum miðast fjöldatakmarkanir á helstu mannamótum nú við 500 manns. Þá ber að taka fram að áður en samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar voru settar fyrir hálfu öðru ári var algengt að í Laufskálarétt mættu á hausti hverju 3.000-4.000 manns, að sögn Atla Más Traustasonar, réttarstjóra og bónda í Syðri-Hofdölum.

Færri gripir verða í Laufskálarétt nú en stundum áður; um 270 fullorðin hross og 400 folöld. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert