Lögregla telur líklegt að rafhlaupahjól hafi orsakað brunann í blokkaríbúð í Bríetartúni í gærkvöldi. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um eld í íbúðinni um kvöldmatarleytið í gær og tókst svo að ráða niðurlögum eldsins um áttaleytið.
Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að enn eigi eftir að rannsaka vettvang brunans til hlítar og skera þannig úr um eldsupptök með fullri vissu.
Hún gat þó sagt við mbl.is að kenning lögreglu væri sú að eldurinn hafi komið til vegna rafhlaupahjóls. Spurð að því hvort e.t.v. hafi rafhlaða hjólsins sprungið segir Elín að of snemmt sé að segja til um slíkt.
Töluverðar skemmdir eru utan á húsinu og er búið að byrgja fyrir glugga, eins og ljósmyndari mbl.is komst að þegar hann skoðaði vettvang fyrir hádegi í dag.
Íbúðin sjálf er gríðarlega mikið skemmd, eins og varðstjóri slökkviliðs sagði við mbl.is í gær á meðan atburðarásinni vatt fram. Hann sagði að eldurinn hafi þó verið minni en leit út í fyrstu og að vel hafi gengið að sinna slökkvistarfi.
Slökkvilið afhenti lögreglu vettvanginn í gær þegar búið var að slökkva eldinn og fer hún nú með rannsókn brunans.