„Ég fékk ekki 1 kr. í kaupaukagreiðslu“

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.
Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. mbl.is/Sigurður Bogi

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, segist ekki hafa fengið eina krónu í kaupaukagreiðslu frá Kviku heldur hafi hún sjálf ásamt eiginmanni sínum nýtt eigin sparnað þegar hún kom heim úr námi og keypt hluti í bankanum. Kristrún var aðalhagfræðingur bankans, en í pistli sem birtur er undir heitinu Óðinn í síðasta Viðskiptablaði var greint frá því að Kristrún hefði fengið tuga milljóna úr kaupaukagreiðslum hjá Kviku.

Kristrún greinir frá þessu í færslu á Facebook, en þar segir hún að umræðan um þessi málefni byggist á pólitískum grundvelli þar sem eigi að keyra sig niður með smjörklípu og óhróðri og gera lítið úr jafnaðarmannaskoðunum hennar.

Nýttu sparnaðinn til að kaupa í Kviku

Fram kemur í færslu hennar að upphæðin sem hún og maðurinn hennar fjárfestu fyrir hafi verið fjárhæð sem þau munaði mikið um. „Þarna erum við hjónin nýkomin úr námi og vinnu, með lítið á milli handanna, en tókum þá ákvörðun um að leggja í þessa fjárfestingu,“ segir Kristrún.

Tekur hún fram að ef verð bréfanna hefði lækkað hefðu þau tapað á fjárfestingunni. Hins vegar hafi fjárfestingin komið vel út, en hlutabréf Kviku hækkuðu mikið frá þeim tíma sem hún hóf þar störf.

„Ég fékk ekki 1 kr. í kaupaukagreiðslu frá Kviku og borgaði fyrir mína eigin fjárfestingu í félaginu takk fyrir mig. Fjárfesting sem kom vel út, eins og margar fjárfestingar á hlutabréfamarkaði undanfarin ár. Síðast þegar ég vissi mega fleiri en Sjálfstæðismenn taka þátt á hlutabréfamarkaði.“

Mín kaup eru ekki til rannsóknar

Þá segir hún Viðskiptablaðið reyna að tengja þetta mál við rannsókn Fjármálaeftirlitsins á kaupaukakerfi Kviku. „Mín kaup eru ekki til rannsóknar, þessi fjárfesting, né ég. Þetta hefur nákvæmlega ekkert með mig að gera. Ég hef borgað mína skatta af þessari fjárfestingu sem ég borgaði fyrir og er í raun ekki í stöðu til að ákvarða hversu mikla skatta ég greiði af því. Ég er nefnilega ekki með mínar fjárfestingar í sérstöku félagi þar sem ég skammta mér fjármagn,“ segir Kristrún.

Þá segir hún að vegna þess að hún hafi átt aukið fjármagn til að fjárfesta viti hún „hvernig fjármagn getur einmitt af sér meira fjármagn“ og því sé hún stuðningskona þess að skattleggja skuli fjármagn meira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert