Farbannsúrskurður yfir manni sem er grunaður um hópnauðgun í maí á þessu ári, hefur verið staðfestur í Landsrétti. Farbannið gildir til 11. nóvember klukkan 16.
Í úrskurði héraðsdóms kom fram að það mætti leiða líkur að því að maðurinn reyndi að koma sér úr landi þar sem hann sé af erlendu bergi brotinn.
Landsréttur taldi skilyrði farbanns uppfyllt en þau eru meðal annars að hætta sé á að sakborningur yfirgefi landið til þess að komast hjá fullnustu refsingar.
Fyrir liggur rökstuddur grunur um að maðurinn hafi gerst sekur um háttsemi sem varðar allt að sextán ára fangelsisrefsingu.
Á hann að hafa nauðgað konu í félagi við annan mann. Konan kærði atvikið til lögreglu en sagðist hvorki vita hverjir gerendurnir væru né hvar brotið hafi átt sér stað.
Konan lýsti atburðarásinni fyrir lögreglu þannig að hún hefði yfirgefið veitingastað í fylgd með manni og talið að þau væru á leið í samkvæmi. Maðurinn hafði þess í stað farið með hana í íbúð þar sem hann beitti hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.
Að því loknu kallaði maðurinn fram annan mann og sagði honum að gera slíkt hið sama. Farbannsúrskurðurinn varðar seinni manninn. Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar.
Umfangsmikil rannsókn hefur staðið yfir í málinu og fundust í íbúðinni, þar sem lögregla gerði húsleit, ýmsir munir sem taldir eru tengjast meintu broti.
Til dæmis fann lögregla skó, fatnað og muni sem tilheyra konunni, rúmfatnað, blóðugan pappír og fartölvu.
Nú er einungis beðið eftir niðurstöðum úr lífsýnarannsókn sem lögregla telur að ættu að liggja fyrir við lok mánaðar og því var talið mikilvægt að tryggja að mennirnir tveir færu ekki úr landi.