Atvinnuleysi hækkaði úr 3,6% árið 2019 í 10,2% í fyrra, en þegar hæst lét voru um 17,8% atvinnulausir vegna áhrifa faraldursins. Samhliða þessu var árið einstaklega sveiflukennt hjá Vinnumálastofnun, en stofnunin þurfi að fjölga starfsfólki um 43%, á tveimur mánuðum fjölgaði þeim sem fengu greiðsluþjónustu frá stofnuninni úr 10 þúsund í tæplega 50 þúsund og símtöl og tölvupóstar sem bárust embættinu fjórfölduðust.
Þetta er meðal þess sem lesa má í ársskýrslu Vinnumálastofnunar fyrir síðasta ár, en Unnur Sverrisdóttir, forstjóri stofnunarinnar, segir í inngangi ársskýrslunnar að strax og bera fór á faraldrinum hafi eitt vaktaplan verið sett upp með hálfri heimavinnu á móti viðveru á vinnustaðnum. Aðeins náðist einn hringur á því vaktaplani og þá voru allir starfsmenn komnir í heimavinnu, en til að það gengi upp þurftu allir starfsmenn að fá fartölvu og tókst að ljúka því á 10 dögum.
Meðal þess sem nefnt er í skýrslunni er að atvinnuleitendur hafi í febrúar í fyrra verið um 10 þúsund. Tveimur mánuðum síðar voru þeir orðnir tæplega 50 þúsund sem fengu greiðsluþjónustu, eða um fjórði hver á vinnumarkaði. Atvinnuleysi fór á þessum tveimur mánuðum úr 5% í 17,8%, en í mars og apríl komu inn 47 þúsund nýjar umsóknir til stofnunarinnar, en í venjulegu árferði væri talan um 3 þúsund.
Fleiri dæmi eru tekin í skýrslunni um aukið umfang. Þannig þurfti stofnunin að taka á móti umsóknum um greiðslur vegna launa í sóttkví fyrir 7.040 starfsmenn fyrir 32.668 sóttkvíardaga, en heildargreiðslur vegna úrræðisins voru 503 milljónir í fyrra. Var meðalgreiðsla á hvern sóttkvíardag 15.421, en meðalgreiðsla fyrir hvern starfsmann 111 þúsund.
Þá var 3.400 sumarstörfum fyrir námsmenn úthlutað til sveitarfélaga og stofnana, en 2,2 milljarðar fóru í átakið.
Þegar horft er til hópuppsagna á síðasta ári var langmest um slíkt vegna ferðaþjónustutengdrar starfsemi. Samtals var 7.280 sagt upp í hópuppsögnum í greininni, eða 82,8% af öllum sem sagt var upp í hópuppsögnum.
Næst þar á eftir kom flokkurinn verslun og vöruflutningar, en þar var 811 sagt upp, eða 9,23%. Í iðnaði var 174 sagt upp í hópuppsögnum, eða 1,98% af heildinni.