Heilbrigðiseftirlitið lagði til á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs í vikunni að umsókn Vöku um endurnýjun á starfsleyfi fyrir móttökustöð fyrir úrgang yrði synjað. Málið hefur lengi verið umdeilt hjá íbúum á svæðinu en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru við Héðinsgötu.
Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins eru færð fyrir því rök að starfsleyfið sem Vaka sækist eftir sé ekki í samræmi við skipulag og neikvæðar umsagnir byggingar- og skipulagsfulltrúa liggja fyrir.
Starfsleyfi fyrirtækisins var fellt úr gildi í júní en í lok júlí fékk það undanþágu fyrir hluta starfseminnar. Umsókn Vöku um endurnýjun starfsleyfa er fjórþætt og voru þrjú þeirra samþykkt. Vaka er því búin að endurnýja starfsleyfi fyrir hjólbarðaverkstæði, bifreiða- og vélaverkstæði og bílapartasölu.
Eins og áður hefur komið fram í fréttum Morgunblaðsins hafa íbúar í hverfinu gert ítrekaðar athugasemdir við rekstur Vöku og tóku 65 íbúar í Laugarneshverfi höndum saman og gerðu alvarlegar athugasemdir við starfsemi fyrirtækisins. Íbúar í hverfinu höfðu áður sent heilbrigðiseftirlitinu ábendingu um starfsemi fyrirtækisins.
Hins vegar hafa einnig íbúar stigið fram til stuðnings starfsemi Vöku. Þar er minnt á að Vaka sé ómissandi styrktaraðili Þróttar og það yrði mikið áfall fyrir hverfið að tapa stuðningnum.