Rannsókn Héraðssaksóknara á Procar-málinu er á lokastigi. Það er saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara sem fær málið til afgreiðslu. Þetta kemur fram á vefsíðu Félags Íslenskra bifreiðaeigenda.
Í stuttu máli snýst Procar-málið um það að snemma á árinu 2019 viðurkenndu forsvarsmenn bílaleigunnar Procar að hafa skrúfað kerfisbundið niður kílómetrateljara í bílum sínum þegar þeir voru settir í sölu.
Embætti Héraðssaksóknara fékk málið inn á sín borð í byrjun sumars 2020. Á síðu FÍB kemur fram að er félagið spurðist fyrir um hvar málið væri statt og hefðu borist þau svör að málið væri á lokastigi hjá embættinu.
Þá segir að rannsóknin hafi verið mjög umfangsmikil en sé nú að mestu lokið og frágangur allur á lokastigi. Verið væri að búa það til sendingar til Ríkissaksóknara sem síðan ákveður hvert framhaldið verður.
Forsvarsmenn procar viðurkenndu svikin í kjölfar fréttaskýringarþáttarins Kveiks, þar sem umfangsmikil umfjöllun um málið kom þar fram. Þá kom í ljós að svikin hefðu staðið yfir árum saman og því fjöldi fólks sem hafði orðið fyrir þeim.
Samtök ferðaþjónustunnar vísuðu Procar úr samtökunum eftir umfjöllun Kveiks og bæði lögregla og Samgöngustofa hófu rannsókn á málinu.
Samgöngustofa taldi sig geta svipt bílaleiguna starfsleyfi en hafði ekki lagaheimild til þess þar sem að fyrirtækið hafði bætt úr þeim annmörkum sem Samgöngustofa gerði athugasemdir við; sem voru breytingar á kílómetrastöðu bíla fyrir sölu.
Héraðssaksóknari fékk málið til rannsóknar úr höndum lögreglu í lok maí 2019 vegna umfangs þess. Upplýst var í Kveik að átt hefði verið við kílómetrateljara í verulegum fjölda bíla og um langt árabil.
Mismikið hafi verið undið ofan af kílómetrateljurum bílanna en í sumum þeirra um tugi þúsunda kílómetra.