Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarbeiðni Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í máli LBI ehf, slitastjórnar gamla Landsbankans, gegn honum, en Sigurjón var í Landsrétti dæmdur til að greiða slitastjórninni 50 milljónir, auk 21 milljónar í málskostnað. Var um að ræða skaðabætur sem slitastjórnin hafði farið fram á vegna vanrækslu sem tengist ábyrgð vegna lánveitingar til félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Landsbankans.
Slitastjórnin krafðist þess í málinu að Sigurjón, auk þeirra Halldórs Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi bankastjóra bankans, og Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi yfirmanns fyrirtækjasviðs bankans, yrðu dæmd til að greiða 10,5 milljarða auk vaxta vegna málsins. Taldi slitastjórnin að þau hefðu sýnt af sér vanrækslu við að innheimta bankaábyrgð sem Kaupþing í Lúxemborg hafði veitt í desember árið 2007 upp á samtals 18 milljarða. Ekki hefðu heldur verið gerðar aðrar ráðstafanir til þess að halda ábyrgðinni við, en hún stóð meðal annars til tryggingar á peningaláni Landsbankans til Fjárfestingafélagsins Grettis hf., sem Björgólfur átti.
Upphæð kröfunnar var upphaflega 18,4 milljarðar, en var síðar lækkuð niður í 10,5 milljarða. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu átt sér stað þegar ekki var gengið á bankaábyrgð Kaupþings í Lúxemborg áður en hún rann út. Því sé til staðar skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð gegn starfsmanni vegna fjártjóns sem sýnt sé fram á að viðkomandi hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu við.
Dómurinn taldi hins vegar sannað að Halldór hefði ekki komið að umræddu lánamáli og að þáttur Sigríðar Elínar væri ekki það mikill að hún ætti að bera skaðabótaskyldu.
Sigurjón byggði málskotsbeiðni sína á því að úrslit málsins gætu haft verulegt almennt gildi sem fordæmi, þar sem málið sé eina skaðabótamálið sem rekið hefur verið á hendur fyrrum æðstu stjórnendum þeirra fjármálafyrirtækja sem féllu 2008.
Þá sagði hann að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni og formi til. Niðurstaðan byggði bæði á röngu mati á sýnilegum sönnunargögnum og rangri túlkun á skaðabótalögum. Þá væri farið í bága við meginreglur um bótaskyldu starfsmanns gagnvart vinnuveitanda sem keypt hefur ábyrgðartryggingu.
Hæstiréttur kemst hins vegar að því að ekki sé ekki unnt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafi gengið, né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni að fá niðurstöðu í málið, né að dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til eða formi.