Sigurjón fær ekki að áfrýja 50 milljóna dómi

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans. Ljósmynd/Þórður Arnar

Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarbeiðni Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í máli LBI ehf, slitastjórnar gamla Landsbankans, gegn honum, en Sigurjón var í Landsrétti dæmdur til að greiða slitastjórninni 50 milljónir, auk 21 milljónar í málskostnað. Var um að ræða skaðabætur sem slita­stjórn­in hafði farið fram á vegna van­rækslu sem teng­ist ábyrgð vegna lán­veit­ingar til fé­lags í eigu Björgólfs Guðmunds­son­ar, fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­manns Lands­bank­ans.

Slita­stjórn­in krafðist þess í mál­inu að Sig­ur­jón, auk þeirra Hall­dórs Jóns Kristjáns­son­ar, fyrr­ver­andi banka­stjóra bank­ans, og Sig­ríðar El­ín­ar Sig­fús­dótt­ur, fyrr­ver­andi yf­ir­manns fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, yrðu dæmd til að greiða 10,5 millj­arða auk vaxta vegna máls­ins. Taldi slita­stjórn­in að þau hefðu sýnt af sér ­van­rækslu við að inn­heimta banka­ábyrgð sem Kaupþing í Lúx­em­borg hafði veitt í des­em­ber árið 2007 upp á sam­tals 18 millj­arða. Ekki hefðu held­ur verið gerðar aðrar ráðstaf­an­ir til þess að halda ábyrgðinni við, en hún stóð meðal ann­ars til trygg­ing­ar á pen­ingaláni Lands­bank­ans til Fjár­fest­inga­fé­lags­ins Grett­is hf., sem Björgólf­ur átti.

Upphæð kröfunnar var upphaflega 18,4 milljarðar, en var síðar lækkuð niður í 10,5 milljarða. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að mis­tök hefðu átt sér stað þegar ekki var gengið á banka­ábyrgð Kaupþings í Lúx­em­borg áður en hún rann út. Því sé til staðar skil­yrði fyr­ir skaðabóta­ábyrgð gegn starfs­manni vegna fjár­tjóns sem sýnt sé fram á að viðkom­andi hafi sýnt af sér sak­næma van­rækslu við.

Dóm­ur­inn taldi hins veg­ar sannað að Hall­dór hefði ekki komið að um­ræddu lána­máli og að þátt­ur Sig­ríðar El­ín­ar væri ekki það mik­ill að hún ætti að bera skaðabóta­skyldu.

Sigurjón byggði málskotsbeiðni sína á því að úrslit málsins gætu haft verulegt almennt gildi sem fordæmi, þar sem málið sé eina skaðabótamálið sem rekið hefur verið á hendur fyrrum æðstu stjórnendum þeirra fjármálafyrirtækja sem féllu 2008.

Þá sagði hann að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni og formi til. Niðurstaðan byggði bæði á röngu mati á sýnilegum sönnunargögnum og rangri túlkun á skaðabótalögum. Þá væri farið í bága við meginreglur um bótaskyldu starfsmanns gagnvart vinnuveitanda sem keypt hefur ábyrgðartryggingu.

Hæstiréttur kemst hins vegar að því að ekki sé ekki unnt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafi gengið, né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni að fá niðurstöðu í málið, né að dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til eða formi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert