Telur stækkun þjóðgarðsins ólýðræðislega

Jón Páll Baldvinsson formaður FETAR er ósáttur við framferði umhverfisráðuneytisins …
Jón Páll Baldvinsson formaður FETAR er ósáttur við framferði umhverfisráðuneytisins þegar kemur að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Stjórn FETAR, hagsmunasamtaka fyrirtækja sem starfa við heilsársferðaþjónustu á hálendi og láglendi, ásamt öðrum hagsmuna- og útivistarsamtökum, búa sig undir að kæra stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Að sögn Jón Páls Baldvinssonar, formanns samtakanna, hefur umhverfisráðuneytið ekki farið nákvæmlega eftir þeim lögum sem kveða á um hvernig þjóðgarður sé stækkaður út á annað land.

Þann 9. september samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar á fundi að svæði A, sem er skilgreint sem Bárðdælaafréttur austari, verði friðlýstur sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Kom einnig fram í fundargerðinni að sveitarstjórn sé reiðubúin til viðræðna um frekari stækkun og leggur hún til að starfshópur vinni áfram að málinu. 

Kort sem sýnir mögulega stækkun Vatnajökulsþjóðgarðar.
Kort sem sýnir mögulega stækkun Vatnajökulsþjóðgarðar.

Talar um gylliboð

Telur Jón að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hafi fengið þessu framgengt með gylliboðum sem kveða meðal annars á um stöðugildi í nefndum sem koma að málefnum þjóðgarðsins og einnig lagfæringar á vegum á hálendinu, sem hann hafi ekki umboð að lofa sem umhverfisráðherra.

Að sögn Jóns hefur friðlýsingin þau áhrif að stórt landsvæði færist nú úr höndum sveitarfélagsins og undir stjórn umhverfisráðuneytisins. Þó svo að sveitarstjórnir hafi fulltrúa í nefndum sem fari með stjórn þessara svæða sé það ávallt umhverfisráðherra sem eigi síðasta orðið.

„Sveitarstjórnin hafði allt þetta vald í höndum sínum fyrir. Nú fær hún að taka þátt í því með ráðherra. Það hefur verið stillt þannig að þeir séu í meirihluta en ráðherra getur skipt út mönnum ef í harðbakka slær.“

Telur hann að friðlýsingin muni fela í sér grundvallarbreytingu á lýðræðislegum stjórnsýsluháttum á landinu okkar.

„Þjóðgarðar sem telja risastór svæði af landinu eru allt í einu komnir í allt aðra stjórnskipun. [...] Það er eiginlega verið að fara á svig við hefðbundið lýðræðislegt stjórnunarfyrirkomulag á Íslandi. Við kjósum í lýðræðislegum kosningum þá sem eiga að fara með skipulagsvald á Íslandi, annars vegar á sveitarstjórnarstigi og hins vegar á landstjórnarstigi.“

Miklir hagsmunir undir

Jón bendir á að ýmis hagsmunamál varði hálendið og því mikilvægt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar fari með þau mál. Sem dæmi nefnir hann virkjanamál, ferðafrelsismál, náttúruverndarmál og hagsmuni sauðfjárbænda sem reka fé sitt á afrétt.

Vekur hann einnig athygli á að á þessu umrædda svæði sé Aldeyjarfoss staðsettur en rétt fyrir ofan hann eru minni fossar og þar séu á áætlun virkjunaráform.

„Það gilda ákveðnar reglur um hvernig stækka á þjóðgarð til þess að tryggja lýðræðislega framgöngu að því. [...] Þarna er verið með mjög vafasamar aðferðir við það að umhverfisráðuneytið nái völdum með því að lýsa þetta svæði þjóðgarð. Það er stjórnsýslufyrirkomulag þar sem umhverfisráðherra ræður, svo ég einfaldi þetta mikið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert