Öryggismiðstöðin, sem starfrækir þrjár skimunarstöðvar undir nafni testcovid.is í samstarfi við Sameind rannsóknarstofu, hefur gert samning við Sjúkratryggingar Íslands um gjaldfrjáls hraðpróf vegna Covid-19.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Öryggismiðstöðinni. Skimunarstöðvar testcovid.is eru við Kringluna, á BSÍ og við Aðaltorg í Reykjanesbæ.
Þeir sem eru á leið á fjölmenna viðburði þar sem krafist er nýlegrar niðurstöðu í hraðprófi geta þannig leitað á fleiri staði til gjaldfrjálsrar skimunar en áður.
„Það eru stór tíðindi að hraðprófin séu ókeypis fyrir alla. Þau kostuðu áður 6.900 kr. en eru sem sagt ókeypis núna sem skiptir auðvitað miklu máli fyrir fólk. Sérstaða okkar er að fólk getur bókað tíma hjá okkur á netinu og það er engin biðröð þegar fólk mæti í skimun,“ segir Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri AVIÖR, sem er svið innan Öryggismiðstöðvarinnar, og sér um rekstur skimunarstöðvanna, í fréttatilkynningunni.
Hraðprófin sem um ræðir eru Antigen-próf frá Siemens sem skila niðurstöðu á 15-20 mínútum. Prófið er framkvæmt með stroku í nefkok og niðurstaða er send með QR-kóða í tölvupósti til viðkomandi um leið og hún liggur fyrir.