Af þeim 2.655 einstaklingum sem sættu ákæru á síðasta ári voru 2.168 karlmenn, eða um 82%. Einungis 475 þeirra, eða 18%, voru konur. Þetta kemur fram í ársskýrslu ríkissaksóknara fyrir árið 2020.
Alls voru 9.132 mál afgreidd hjá ákæruvaldinu í fyrra og fækkar afgreiðslum mála um 5,1% frá árinu 2019. Meðal þeirra mála sem voru afgreidd vörðuðu 1.193 auðgunarbrot, 880 vörðuðu brot á fíkniefnalöggjöfinni og 181 varðaði brot á vopnalögum. Auk þeirra voru 325 kynferðisbrotamál afgreidd og var ákært í 130 þeirra.
Flestir þeirra ákærðu voru á þrítugs- og fertugsaldri, en 241 einstaklingur á aldrinum 13 til 19 ára sætti einnig ákæru á þessu tímabili. 121 var orðinn eldri en 60 ára.